140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Á árunum fyrir hrun jókst ójöfnuður á Íslandi meira en í öðrum OECD-löndum. Það er staðfest. Leið íslenskra stjórnvalda út úr hruninu var leið jafnaðar, það var vel. Þetta er staðfest með tölum og rannsóknum. Við fórum þá leið sem aðrir hafa ef til vill ekki farið, svo sem eins og Írar þar sem ójöfnuður hefur aukist eftir hrun. Hér hefur hins vegar verið farin sú leið að auka jöfnuðinn þannig að minni álögur hafa verið lagðar á lágtekjuhópa en meiri á hátekjuhópa. Þetta sést á tölum, frú forseti, sem ég get vitnað í. Að meðaltali var kjaraskerðingin eftir hrunið um 20%. Lágtekjuhópar urðu fyrir 9,4% skerðingu en hátekjuhópar um 38%. Á Írlandi var þessu öfugt farið. Þar urðu lágtekjuhópar fyrir 26% missi en hátekjuhópar, þeir sem höfðu mestar tekjur, græddu 8% á hruninu. Hér höfum við farið leið jafnaðar út úr hruninu og það skiptir sköpum. Þess vegna er afskaplega brýnt og mikilvægt að hafa stjórn jafnaðarmanna við völd þegar við erum að laga til í samfélaginu eftir einhver mestu ósköp sem dunið hafa yfir íslenska lýðveldið á undanliðnum áratugum.

Þar fyrir utan er gríðarlega mikilvægt, frú forseti, að sýna á þessum tímum sem aldrei fyrr aga í ríkisfjármálum. Það hefur verið gert. Við sem styðjum þessa ríkisstjórn höfum ekki farið þá leið sem var farin fyrir hrun þegar fjárlög ríkisins voru brotin sem nemur tugum milljarða á ári. Ég get nefnt sem dæmi að heilbrigðisgeirinn fór 33 milljarða fram úr fjárlögum á fjórum árum fyrir hrun. Það nemur rekstri eins Landspítala á einu ári. Okkur hefur tekist að ná böndum á ríkisfjármálabúskapnum og það er að skila sér. Uppskeran er hafin í þeim efnum.

Í þriðja lagi, frú forseti, verðum við að huga að því hvernig við byggjum okkur út úr þessu hruni, hvernig við endurhönnum Ísland. Það gerum við með því að sækja fram á forsendum fjölbreytni í atvinnumálum. Einhæfni í atvinnumálum hvar sem er hringinn í kringum landið er leiðin til glötunar. Fjölbreytni festir byggðir í sessi, jafnt í þéttbýli sem í hinum dreifðu byggðum. Sú framkvæmdaáætlun sem hér er til umfjöllunar sýnir einhverja þá bestu leið sem er hægt að fara til að treysta byggðir í sessi, til að treysta fjölbreytni atvinnulífsins og leið beggja kynja inn á þann mikilvæga markað sem skiptir sköpum fyrir heimilin.

Á Íslandi höfum við byggt á tiltölulega fáum stoðum; matvælaframleiðslu, en sjávarútvegur og landbúnaði eru með um 25% af verðmætasköpuninni, áliðnaði sem er sömuleiðis með um 25% af verðmætasköpuninni og ferðaþjónustunni sem hefur verið sívaxandi burðarstoð og sú nýja stoð sem margir hafa nefnt í íslensku atvinnulífi. Það gleymist gjarnan að nefna fjórðu stoðina sem er ef til vill að verða einhver sú mikilvægasta og eykur fjölbreytni atvinnulífsins til mikilla muna og það er hugverkageirinn en verðmætasköpun hans er að verða 21% af framleiðslu samfélagsins. Það er athyglisvert að taka eftir vextinum í þeirri grein en árið 2005 velti þessi geiri 2 milljörðum kr., árið 2010 16 milljörðum kr. og á næsta ári er áætlað að hann velti 44 milljörðum kr.

Með þessari framkvæmdaáætlun setjum við ekki öll eggin í sömu körfu. Við leggjum áherslu á fjölbreytni atvinnulífsins í öllum greinum, í sjávarútvegi, í iðnaði, í ferðaþjónustu, í samkeppnissjóðageira okkar og í hugverkaiðnaðinum. Við erum með öðrum orðum að veðja á auðlegð sköpunar. Það er að mínu mati lykilorðið í atvinnusókn inn í framtíðina að veðja á auðlegð sköpunar því samfélag sem byggir á einhæfni í atvinnulífi er dæmt til að verða fyrir áföllum en það samfélag sem sækir fram á fjölbreyttu atvinnulífi getur keppt við bestu samfélög í heimi hér.