140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af gömlu flokkunum í stjórnarandstöðunni. Það sýnist vera þannig að því betur sem gengur í efnahagsmálum, því meira sem lífskjörin batna, því meira sem atvinnuleysi minnkar, því meira sem hagvöxturinn eykst, því önugri verða þeir. Mér finnst ótrúlegt hversu erfitt er að gleðja stjórnarandstöðuna og mér datt í hug undir umræðunni hvort þetta væru eftirköst af því sem fram fór í dag, þ.e. hvernig stjórnarskrármálinu lyktaði þar sem meðal annars sumir stjórnarandstöðuþingmenn sögðu að sú atkvæðagreiðsla sem þar fór fram væri mælistika á styrkleika stjórnarflokkanna. Sú niðurstaða var 35:15 stjórnarflokkunum í hag. Þessi málflutningur er alveg ótrúlegur, virðulegi forseti, vegna þess að það sem stóð upp úr hjá stjórnarandstöðunni var að áætlunin byggði á veikum grunni, að þetta væru rangar áherslur í atvinnumálum og það voru tíunduð svik í atvinnuuppbyggingu. Allt þetta er rangt, virðulegi forseti, og ástæða til að fara yfir það vegna þess að þegar talað er um svik í atvinnuuppbyggingunni er alveg ljóst að atvinnuleysi hefur ekki lækkað úr 10% í 6,5% af sjálfu sér, (Gripið fram í: Nei.) það er alveg ljóst. Hagvöxturinn hefur ekki farið upp í 3%, sem er meira en gerist í Evrópulöndunum, af sjálfu sér og er 3% hér á sama tíma og hann er að minnsta kosti helmingi minni annars staðar.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hér hafa talað skilja ekki að það eru ýmsir fjárfestingarsamningar í gangi sem gerðir hafa verið, einir sex fjárfestingarsamningar, fjórir eða fimm í undirbúningi, mörg opinber verkefni eru í gangi upp á nærri 100 milljarða kr. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði fyrir því að hér ætti frekar að skoða rekstrarumhverfi fyrirtækja. Hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera í þeim málum? Jú, við erum með skattaívilnanir í fjárfestingarsamningum sem hafa gagnast mikið, endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna viðhaldsframkvæmda o.s.frv. Ef allt hefur ekki gengið eftir af því sem var til dæmis í kjarasamningunum er það fyrst og fremst óvissan í alþjóðlegum efnahagsmálum sem hefur valdið erfiðleikum í fjármögnun í fjárfestingum. Það er það sem fyrst og fremst er um að ræða.

Það er rangt að tala um veikan grunn fyrir þessari fjárfestingaráætlun. Við erum að tala um það að af veiðigjaldinu sem er áætlað að verði 40–50 milljarðar fari til dæmis 17 milljarðar í fjárfestingar og að af arði af sölu á bönkunum sem verða 75 milljarðar fari 22 milljarðar í fjárfestingar. Við erum að tala um að fjárfestingin geti orðið á árinu 2014 rúmlega 19% sem hlutfall af landsframleiðslu en var 15,2% á þessu ári. Þetta er 4% aukning á tveimur árum, virðulegi forseti, og við erum að tala um 125 milljarða í tekjur af eignarhlut og arði í bönkum á næstu þremur árum og af veiðigjaldinu og það eru 30% af þessari fjárfestingu sem fara í fjárfestingaráætlunina. Afgangnum er meðal annars hægt að verja til að treysta hag ríkissjóðs og greiða niður skuldir. Það er rétt sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan, hér er fyrst og fremst á ferðinni stjórnarandstaða sem er með niðurrifsmálflutning meðan stjórnarflokkarnir tala fyrst og fremst fyrir uppbyggingu í atvinnumálum og bættum lífskjörum sem endurspeglast í þessari fjárfestingaráætlun.