140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fundarstjórn.

[17:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég spyr um það sama og aðrir. Mér hefði reyndar þótt eðlilegast að samþykkt þessa rammasamnings eða þessarar þingsályktunartillögu hefði komið hingað inn áður en menn skrifuðu upp á rammasamning og voru síðan með hann í felum í eina sex mánuði, ég tala nú ekki um áður en við samþykktum fjárlög í haust. En svo er skipt svona á dagskrárliðum þegar búið er að fjalla á líklega þremur fundum um frumvarpið og þingsályktunartillagan tekin á undan. Ég held að það kalli á að frú forseti útskýri fyrir okkur í þinginu af hverju það er gert og hvort það hafi þá verið mistök að fjalla um frumvarpið fyrst. Ég ítreka að það hefði verið eðlilegast að ræða þingsályktunartillöguna í fyrrasumar úr því að menn voru búnir að skrifa upp á rammasamning áður en þingsályktunartillagan lá fyrir og samþykkt þingsins fyrir því að gera slíkan rammasamning.