140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hæstv. forseti þurfti einmitt að vekja á því athygli að framsögumaður álitsins hér að framan er ekki framsögumaður meiri hluta utanríkismálanefndar heldur 1. minni hluta. Það er vegna þess að ekki reyndist vera meiri hluti í utanríkismálanefnd fyrir þessari þingsályktunartillögu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, en við höfum átt í erjum um það hvernig staðið var að úttekt málsins í utanríkismálanefnd, hvort hann telji að málsmeðferðin í utanríkismálanefnd hafi verið góð stjórnsýsla og þinginu til sóma. Við vitum hvernig þetta var, þetta mál var tekið út í ágreiningi. Af hverju lá hv. þingmanni svo á að taka málið út að það þurfti að gerast á fyrstu þremur mínútum fundar utanríkismálanefndar?