140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég er ekki sammála hv. þingmanni um þetta. Ég tel að íslensk þjóð sé fullfær um að taka efnislega afstöðu til þessa máls þegar samningsniðurstaða liggur fyrir og muni ekki láta önnur sjónarmið en efnisleg hvað samningsniðurstöðuna varðar ráða afstöðu sinni.

Varðandi önnur ríki gat ég um það í framsögu minni að Ísland tekur aðeins við IPA-styrkjum úr einum af fimm flokkum. Það skýrir auðvitað að önnur ríki voru að taka við styrkjum að miklu meira umfangi, m.a. vegna þess að þau þurftu að laga löggjöf sína og stofnanir að regluverki Evrópusambandsins á undirbúningsstiginu sem ekki á við hér á landi. Ég lít svo á að þeir IPA-styrkir sem við getum átt aðgang að falli ekki undir þann flokk sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kallar aðlögunarstyrki. Ég gæti farið yfir það betur síðar í þessari umræðu ef á þarf að halda. (Gripið fram í.)