140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst hv. þingmaður helst til kurteis þegar spurt er um hvers konar fjármunir þetta eru, þessir IPA-styrkir. Í mínum huga eru þetta perlur og eldvatn. Það er mín afstaða þannig að það sé bara sagt. Það er verið að bera fé á íslenska þjóð til að kaupa sér góðvild hennar, til að kaupa sér fylgi við þessa gölnu vegferð sem hv. þingmenn stjórnarflokkanna bera helst ábyrgð á.

Ég er líka ósammála hv. þingmanni hvað það varðar, þ.e. ef ég skildi hana rétt, að hafa efasemdir um að meiri hluti sé fyrir því að samþykkja þessa IPA-styrki á Alþingi. Ég tel næsta víst að í því máli, eins og öllum öðrum sem ganga út á það að halda lífi í ríkisstjórninni, muni Vinstri grænir kasta kosningaloforðum sínum á eldinn eins og þeir hafa gert fram að þessu. Við þurfum ekkert að efast um það. Það liggur fyrir eins og það hefur alltaf gert og ég vona svo sannarlega að Vinstri grænir geri það fram að næstu kosningum þannig að það gleymist ekki rétt fyrir kosningar hvernig sá flokkur hefur farið með kosningaloforð sín hér á þingi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í mál sem ég var að reyna að spyrja út í fyrr í kvöld. Það snýr að því að hér var sett á fót svokölluð Evrópustofa, áróðursstofa fyrir þetta ferli allt saman, búin að halda einhverjar hátíðir og húllumhæ til að sýna að það sé líka gaman í Evrópusambandinu. Síðan hefur sérstakur talsmaður farið hringinn í kringum landið og boðað fagnaðarerindið með fundum. En það kemur hins vegar í ljós að Evrópustofa er fjármögnuð af þessum IPA-styrkjum sem eru ætlaðir til að búa samfélag undir aðlögun og inngöngu í Evrópusambandið. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort honum finnist eðlilegt að þessir fjármunir og þessi stofa vinni með þessum hætti.