140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú rifjast upp fyrir mér aðeins meira um þennan ágæta bækling. Ég hygg að þarna sé vitnað til orða Ollis Rehns sem Íslendingum er að góðu kunnur, bæði frá núverandi störfum og eins fyrri störfum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann er lykilmaður í þessu og fer ekki með neitt fleipur um það hvað felst í samningaviðræðum, eins og hv. þingmaður rakti áðan. Það er auðvitað ástæða til að taka mark á því sem hann segir um þetta efni frekar en orðum ýmissa hv. þingmanna og ráðherra hér heima fyrir sem vilja klæða Evrópusambandsumsóknina og aðildarferlið í allt annan búning en það raunverulega er í.

Hv. þingmaður getur beint orðum síðan að einhverjum sem ekki eru með skýra afstöðu í þessu með sama hætti og ég og vænti ég þess að hann beini því til þeirra sem eiga það (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Ef þeir gefa færi á því.) ef þeir sýna sig hér í ræðustól á eftir.