140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns er auðvitað rétt að rifja upp að þegar Alþingi samþykkti aðildarumsókn sumarið 2009 var það ekki vegna þess að meiri hluti þeirra flokka sem áttu fulltrúa á Alþingi vildi að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Það var ekki svo að 32 eða fleiri í þessum þingsal hugsuðu með sér að framtíð Íslands væri best borgið innan Evrópusambandsins. Nei, hugmyndin var seld, ef svo má segja, með ýmsum hætti. Eitt var það að nauðsynlegt væri að sækja um aðild til að vita hvað fælist í Evrópusambandsaðild. Sumir eru enn þeirrar skoðunar þrátt fyrir að það liggi auðvitað fyrir eins og fram hefur komið í þessum umræðum að í Evrópusambandsaðild felst í megindráttum það að menn laga sig að Evrópusambandinu eins og það er og eiga kannski kost á einhverjum tímabundnum undanþágum á einhverjum afmörkuðum sviðum en í öllum meginatriðum eru menn að gerast aðilar að Evrópusambandinu eins og það er. Það eru ekki umsóknarríkin sem skapa Evrópusambandið í sinni mynd.

Í öðru lagi hefur þeirri blekkingu verið haldið á lofti að það að sækja um aðild væri einhvern veginn algjörlega ábyrgðarlaust ferðalag sem fæli það eingöngu í sér að menn væru að kynna sér möguleika og skoða í búðarglugga án þess að ætla sér endilega að kaupa nokkuð. Auðvitað er ekki gert ráð fyrir því, það er gert ráð fyrir aðlögun og við höfum séð á mörgum sviðum að um raunverulega aðlögun er að ræða og IPA-styrkirnir endurspegla það með sínum hætti. Þær eru bara eitt dæmi af mörgum en þeir sýna okkur meðal annars fram á hvernig aðildarumsókn leiðir (Forseti hringir.) til aðlögunar.