140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsagnarríki ESB, þ.e. á íslensku svokallaða IPA-styrki.

Hér liggja fyrir tvö nefndarálit, frá 1. minni hluta og 2. minni hluta utanríkismálanefndar. Ég hyggst nú fjalla aðeins um þetta mál út frá minni eigin upplifun á þessum málflutningi hér í dag og þeim skjölum sem hér hafa verið lögð fram.

Sá samningur sem þetta mál byggir á var undirritaður 8. júlí sl. Hann er birtur sem fylgiskjal með þessari tillögu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fór yfir nefndarálit 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Ég spurði hann í andsvari hvort hann teldi þennan samning og það mál sem hér liggur frammi ekki endanlega leggja það á borðið að við erum ekki í umsóknarferli heldur aðlögunarferli að ESB. Hv. þingmaður var ekki sammála mér um þetta og ætlaði að koma seinna í umræðunni og svara betur þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég hlakka til að fá að heyra þau. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hélt því fram að IPA-styrkirnir okkar væru gefnir á öðrum forsendum en þeir styrkir sem ratað hafa til annarra umsóknar- og aðlögunarþjóða sem hafa verið í aðlögunarferli við Evrópusambandið. Ef við skoðum aðeins fylgiskjalið með þessu máli sem er rammasamningur milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland, þetta er á bls. 7 og áfram í þingskjalinu sjálfu, kemur fram að ríkisstjórn Íslands komi fram fyrir hönd Íslands og sé aðstoðarþegi samkvæmt þessum samningi. Það kemur fram í 1. tölulið á bls. 7 í þingskjalinu að ráð Evrópusambandsins hafi 17. júlí 2006 stofnað sjóð til að fjármagna aðstoð við umsóknarríki ESB og þessi gerningur sé eini lagagrundvöllurinn sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvíli á. Með leyfi forseta ætla ég að ljúka málsgreininni með því að vitna beint í þennan samning: „… til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Miðað við það að við séum ekki, samkvæmt orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, í aðlögun að Evrópusambandinu skil ég ekki til hvers þessi samningur er gerður. Hvernig á þá að skýra þennan texta samningsins sem ríkisstjórn Íslands hefur fyrir hönd aðstoðarþegans Íslands skrifað undir ef það er afstaða Íslands að hér sé ekki um aðlögun að ræða þegar þessi fjárhagsaðstoð er veitt til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Ég skil ekki alveg þann málflutning.

Jafnframt finnst mér eitthvað óeðlilegt við það að við Íslendingar gerum samning við Evrópusambandið um að liðka fyrir pólitískum breytingum á Íslandi til að liðka fyrir aðildarumsókn að ESB. Hver er hugsunin á bak við þetta af hálfu Íslendinga? Hver eru samningsmarkmið okkar varðandi þetta atriði? Hvað vakti fyrir ríkisstjórnarflokkunum í þessu atriði þegar þeir undirrituðu þennan rammasamning? Það hefur ekki komið fram í umræðunni og ég kalla eftir því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson upplýsi okkur um hvað átt var við með þessu þegar undir þetta var skrifað.

Þá kemur fram á bls. 8 í sama skjali að í 3. gr. er fjallað um markmiðin með þessum styrkjum. Þau eru að stuðla að samvinnu milli samningsaðilanna og undirbúa aðstoðarþegann, aðstoðarþegann Ísland í þessu tilfelli, í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins. Með leyfi forseta ætla ég að vitna beint í skjalið með framhaldið, að þar á meðal „eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga, eru samningsaðilar sammála um að hrinda í framkvæmd verkefnum á ýmsum sviðum eins og fram kemur í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni og eins og hæfir aðstoðarþeganum“.

Hér er verið að tala um að breyta réttarreglum með aðild aðstoðarþegans Íslands í huga. Hvað þýðir þetta ef ekki að laga Ísland að reglum ESB þegar hér er talað sérstaklega um að breyta réttarreglum aðstoðarþegans?

Síðan kemur hér um skyldur aðstoðarþegans að hann eigi að tryggja að allar stuðningsaðgerðir séu viðeigandi og eigi að greiða fyrir framgangi áætlana.

Þegar fjallað er um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð eru í 5. gr. jafnframt raktar þær meginreglur sem gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA. Í b-liðnum í 1. tölulið kemur fram „að aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB“. Hvað þýðir að stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB ef ekki að samræma réttarreglur Íslands og réttarreglur ESB? Ég spyr.

Ef það var ekki meiningin með þessum samningi að vera í aðlögun eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan, að við værum undir einhverjum öðrum reglum en allar aðrar þjóðir sem hafa sótt um, hvers vegna er þetta þá þarna inni? Til hvers var Ísland að skrifa undir þetta, þ.e. ríkisstjórnin fyrir hönd aðstoðarþegans Íslands?

Síðan segir áfram í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins þegar meginreglurnar eru taldar upp, með leyfi forseta:

„hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB“.

Miðað við þennan samning leggur ESB þarna gríðarlega áherslu á að það sé ljóst hverjum manni að ESB styrki þau verkefni sem um ræðir. Af hverju leggur ESB svona mikla áherslu á þennan sýnileika? Það er ekki einungis fjallað um þetta í 5. gr., heldur er sérstök grein, 10. gr., sem heitir „Kynning og sýnileiki“ og er á bls. 12 í þingskjalinu. Í þrem töluliðum kemur fram að upplýsingum skuli beint til borgara og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB. Hver er tilgangurinn með því? Ég átta mig engan veginn á því út frá þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hér af hálfu 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Þetta eru afskaplega athyglisverðar pælingar, bæði varðandi markmiðin með þessum samningi og eins áhersluna á þennan sýnileika. Síðan væri mjög gaman að fara í löngu máli og ítarlega yfir þau atriði í samningnum sem varða skattalegu hliðina. Ég gerði það að hluta til í ræðu minni í umræðunni um hið fyrra mál sem hefur verið rakið svolítið í dag, mál sem fjármálaráðherra lagði fram um skattalegu meðferðina. Samningurinn sjálfur liggur hér til grundvallar og mætti svo sem ræða en ég tel ekki rétt að einbeita mér að ákvæðum í umræðunni um þetta mál heldur mun geyma það þangað til frumvarpið sjálft verður tekið fyrir, væntanlega seinna í kvöld eða á morgun.

Frú forseti. Í öðru lagi er í samningnum fjallað um það hvernig eftirlit með þessum samningi eigi að fara fram. Ég hef svo sem engar sérstakar athugasemdir við það, en þetta eru þau meginatriði í samningnum sjálfum sem vert er að skoða.

Þá eru þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti 1. minni hluta, þar sýnist mér hvergi vera minnst á þau markmið með samningnum sem ég reifaði áðan. Það finnst mér athyglisvert vegna þess að mér sjálfri finnst það aðalatriðið. Ef maður gerir samning hlýtur maður að vera með einhver markmið, einhvern tilgang, með því að gera þann samning. Það er alveg ljóst af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hver markmið þess eru, þessi áhersla á sýnileikann og kynningarstarfið, sem og að þessi fjárhagsaðstoð sé til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að aðstoðarþeginn gerist aðili að Evrópusambandinu.

En hvað var Ísland að hugsa með því að undirrita samning við Evrópusambandið? Um hvaða styrki var íslenska ríkisstjórnin að hugsa þegar hún undirritaði þetta ákvæði um fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar umbætur? Hvaða tilvik falla þarna undir sem ríkisstjórn Íslands og þeir sem styðja þetta mál láta sér til hugar koma? Það væri ágætt að fá það fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni.

Í öðru lagi spyr ég: Hvaða efnahagslegu umbætur er verið að tala um að gera í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Hvað vakti fyrir mönnum með því að undirrita þetta?

Síðan eru stjórnsýslulegu umbæturnar.

Það væri ágætt að fá svolitla sundurgreiningu á þessu hjá þeim hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem hér eru staddir í kvöld og styðja þetta mál.

Í löngu máli hefur verið fjallað um, bæði hér í þessari umræðu og eins áður þegar Evrópusambandsmálin hefur borið á góma, hvort um aðlögun sé að ræða eða ekki. Ég tel að hverjum manni megi vera ljóst að það er verið að laga Ísland að Evrópusambandinu og kerfi þess. Ég skil ekki af hverju þeir fulltrúar sem eru á þingi og styðja það að Ísland sé í þessu ferli, styðja þessa aðlögun að Evrópusambandinu, viðurkenna það ekki einfaldlega. Ef menn eru búnir að sækja um og hafa trú á því að þeir vilji standa við þá umsókn, af hverju afneita menn því þá að þeir séu í þessu ferli? Ég skil það ekki og ekki heldur af hverju menn tala bara ekki hreint út. Sumir þingmenn hafa gert það, en ekki þeir sem hér hafa talað í dag og styðja þetta mál.

Þess vegna er einhvern veginn eins og verið sé að reyna að slá ryki í augu okkar hér og í augu þjóðarinnar í þessari umræðu. Það stendur einfaldlega í samningnum sjálfum sem ríkisstjórn Íslands hefur undirritað að þessi fjárhagsaðstoð sé til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta stendur hérna svart á hvítu.

Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar og tel að það sé öllum ljóst að ekki sé rétt að eyða tíma og kröftum okkar í þessa aðildarumsókn og mundi kjósa að hún yrði dregin til baka. Ég tel reyndar að alveg sama hvorum megin menn standa, hvort menn eru svokallaðir aðildarsinnar eða á móti því að við sækjum um aðild og séum í aðlögunarferli að ESB, hljóti menn að vera sammála um að ferlið allt er í ógöngum. Og það er vegna þess hvernig staðið var að málinu í upphafi. Við sjálfstæðismenn lögðum hér til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla áður en umsókn yrði lögð fram til að það lægi fyrir hvort vilji væri hjá þjóðinni til að fara í þessa vegferð. Þeirri tillögu var því miður hafnað.

Hins vegar náði Samfylkingin á einhvern óskiljanlegan hátt að teyma Vinstri hreyfinguna – grænt framboð inn í það að senda inn umsókn að Evrópusambandinu. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef vart tölu á þeim kjósendum Vinstri grænna sem ég hef hitt og hafa lýst furðu sinni á þessari skrýtnu afstöðubreytingu Vinstri grænna. Menn höfðu ástæðu til að ætla, út frá málefnabaráttu þess flokks fyrir alþingiskosningar, að það væri það síðasta sem Vinstri grænir mundu gera. Nokkrir hv. þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi meðlimir í VG, hafa staðið á sannfæringu sinni í þessu máli, en aðrir eru komnir það langt frá henni að ég átta mig ekki á þeim sinnaskiptum. Auk þess virðast menn ekki viðurkenna að þeir hafi samþykkt þetta aðlögunarferli. sem er í fullum gangi og okkur öllum ljós, sérstaklega nú þegar við erum að ræða þennan samning sem ríkisstjórnin hefur gert við ESB.

Þetta er afskaplega sérkennilegt allt saman og þar sem ýmsir þingmenn hafa lýst því yfir að þetta mál sé komið í ógöngur tel ég, og það er enn sannfæring mín, að það besta sem við gætum gert hér í dag væri að draga þessa umsókn til baka og hætta þessu ferli. Ég hef sagt það oft áður að það er ekki fallegt að sækja um aðild í einhverjum klúbbi sem maður hefur engan áhuga á að vera í.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir velti því upp í andsvari áðan við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort það væri siðferðislega rétt að taka við þessum styrkjum þegar ljóst væri að ekki væri vilji til að ganga í Evrópusambandið. Hv. þingmaður hélt því fram að við þyrftum að svara spurningum um þetta seinna þegar í ljós kæmi þessi vilji okkar til að fara ekki inn. Mér finnst þetta alveg ágætispunktur og við munum þá í framtíðinni sjá hvaða afleiðingar þetta mun hafa. Ég tel að við séum ekki á réttri braut. Ég tel, sama hvort maður er aðildarsinni eða andstæðingur þess að við göngum í Evrópusambandið, að við hljótum að vera sammála um að það sé ekki eðlilega að þessu ferli staðið.

Frú forseti. Ég hlakka til að fá að heyra, eins og ég sagði áðan, seinni ræðu eða ræður hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem hlustar hér af athygli á spurningar mínar þar sem hann mun svara því hvað átt sé við með þeim ákvæðum í samningnum sjálfum sem ég vitnaði til áðan og hvernig hægt sé að halda því fram að það sé nokkur annar tilgangur með þessum rammasamningi en sá að laga Ísland að Evrópusambandinu.