140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[22:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá andsvar frá hv. þingmanni. Það er hárrétt að ég lagði áherslu á það sem ráðherra að íslensk stjórnsýsla, m.a. landbúnaðarstjórnsýsla, væri í raun það öflug og fljót að bregðast við að hún gæti ef aðildarsamningur yrði samþykktur — það mundu jú líða nokkrir mánuðir þar til hann yrði staðfestur af öðrum aðildarríkjum þangað til að hann kæmi til framkvæmda — gert það á þeim skamma tíma sem þarna væri. Ég taldi að við þyrftum ekki á nokkurn hátt að aðlaga okkur undir það.

Ég hafnaði því algjörlega að hefja aðlögunarferli í íslenskum landbúnaði meðan á samningaviðræðunum stæði og þar stóð hnífurinn í kúnni. Ég er hræddur um að nú sé komin eftirgjöf í það mál og sú vegferð sé hafin að undirbúa (Forseti hringir.) og stilla upp íslenskri stjórnsýslu, m.a. í landbúnaði, miðað við það að við séum (Forseti hringir.) komin í Evrópusambandið.