140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað kunnugt að við Íslendingar höfum fengið talsvert mikla peninga í gegnum til að mynda vísindasamstarf okkar við Evrópusambandið undir ýmsum áætlunum sem ég ætla í sjálfu sér ekki að tíunda. Þar hafa vísindamenn okkar einfaldlega keppt á samkeppnisgrundvelli og sýnt hæfni sína og færni til að afla þessa fjár og ég tel ekkert að því, ég tel það ósköp eðlilegt. Það eru styrkir sem menn sækjast eftir og keppa um á samkeppnisgrundvelli. IPA-styrkirnir eru ekki af þeim toga. Yfirlýstur tilgangur með þeim er að breyta stjórnkerfi okkar og stjórnsýslu, og þess vegna eru þeir í meginatriðum allt öðruvísi.

Ég get alveg skilið röksemdafærsluna frá sjónarhóli Evrópusambandsins fyrir því að setja svona styrki í þessa aðlögun, en það sem vekur hins vegar margar spurningar í mínum huga og mér finnst mjög sérkennilegt eru aðrir styrkir til góðra verkefna, sem við getum kallað sem svo, vítt og breitt um landið sem eru til þess fallin að draga upp frekar (Forseti hringir.) góða ímynd af Evrópusambandinu og ég sé ekki að hafi þann tilgang sem verkefnum sem fá IPA-styrki er ætlað að hafa.