140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur eru fjölmörg mál í nefndum og á lista þingsins sem eftir á að ræða, og eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól er það ekki skortur á þingdögum sem ræður því að þau komast ekki áfram, heldur skortur á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Enn liggur ekkert fyrir um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar nema það að hæstv. forsætisráðherra virðist halda að hún ráði dagskrárvaldi og hótar hér út og suður sumarþingi og lengri þingfundum til að koma sínum gæluverkefnum og ríkisstjórnar sinnar fram, hvort sem þau eru brýn eða mikilvæg að mati annarra. Við höfum starfsáætlun sem hæstv. forseti vann í samráði við alla stjórnmálaflokka og lagði fyrir forsætisnefnd, þingflokksformenn og hæstv. ríkisstjórn til samþykktar. Ef svo fer fram sem horfir verður þessi starfsáætlun brotin. Ég geri athugasemd við það. Ég er ekki tilbúin til að hleypa hér í gegn óútfylltum tékkum og ég vil spyrja hæstv. forseta: Hvað hyggst hæstv. forseti láta (Forseti hringir.) þennan kvöldfund á föstudegi fyrir hvítasunnuhelgina standa lengi?