140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég harma það að hv. þingmaður er eins og ég farinn að tapa heyrn, en ég hef fengið mér heyrnartæki og ráðlegg þingmanni að gera það líka því að það sem ég las upp úr nefndarálitinu var m.a. þetta:

„Er það því skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð verði felld á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.“

Þetta var skilningur samgöngunefndar sem hv. þingmaður var formaður fyrir og mig minnir að ég hafi meira að segja þvælst inn í síðustu afgreiðslu þessa máls, að vísu nýkominn þá aftur úr stórsjó og brimi og ekki alveg með réttu ráði, að ég held að þessu sinni.

Þessi spurning skiptir máli, ekki upp á heilsufræðileg atriði hjá hv. þingmanni eða mér, heldur vegna þess að hún greinir á milli þess hvort verkefnið er ríkisframkvæmd, hvort það er einkaframkvæmd eins og þetta hefur verið skilgreint, eða eitthvað þar á milli. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Er hér um að ræða ríkisframkvæmd eða einkaframkvæmd? Ef hvorugt er í boði, hvernig skýrir þingmaðurinn flokkun þessarar framkvæmdar upp á framtíðina? Hún á auðvitað eftir að verða fordæmi (Forseti hringir.) á næstu áratugum.