140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni 1. minni hluta fyrir ágæta ræðu og gott nefndarálit sem hefur að minnsta kosti haft töluverð áhrif á afstöðu mína í málinu þegar hér er komið sögu.

Ég heyrði hann segja að hann efaðist ekki í sjálfu sér um umferðarspár Vegagerðarinnar og ég tek undir það með þingmanninum að ég geri það yfirleitt ekki heldur þegar upplýsingar berast frá Vegagerðinni og hef kynnst henni að því leytinu þannig að þar fari ákaflega traust stofnun og ekki þurfi að spyrja þrim sinnum þegar um Vegagerðina er að ræða. Ég tel hins vegar í þessu máli að Vegagerðin sé kannski fullíhaldssöm og reikni ekki með þeim nýju forsendum sem nú eru uppi um umferð. Um þetta vitum við auðvitað ekki neitt.

Sumir segja að það hvað dregið hefur úr umferð að undanförnu sé hruninu að kenna, bensínhækkunum hugsanlega. Þetta má vera rétt og þá spyr maður: Bíddu, verður lát á bensínhækkunum? Mun bensín lækka aftur?

Aðrir segja að hinn stöðugi vöxtur umferðar í marga áratugi hafi sennilega náð hámarki og fram undan sé í raun og veru önnur sveifla, sveifla niður á við, m.a. með auknum almenningssamgöngum og öðru lífsmunstri hjá fólki. Menn tala t.d. um sunnudagsbíltúrana sem við þekkjum úr æsku og eru miklu fátíðari núna. (Forseti hringir.)

Spurningin er þess vegna: Telur (Forseti hringir.) þingmaðurinn að Vegagerðin hafi metið nægilega þessa þætti í umferðarspá sinni?