140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú berast þær fréttir að atvinnumálanefnd hafi afgreitt sjávarútvegsfrumvarpið úr nefnd með litlum breytingum. Það er náttúrlega galið að fara í að afgreiða það eins og mörg önnur mál, til að mynda eins og þau sem afgreidd voru í dag af hálfu allsherjar- og menntamálanefndar þar sem menn eru í spreng eins og ríkisstjórnin er með öll sín mál.

Reynslan sýnir að á lokaspretti þingsins verða ráðherrar, sama hversu sárt sem það kann að vera, að horfast í augu við það að þeir þurfa að hætta við mál, þeir þurfa að sleppa málum og koma einfaldlega með málin að nýju næsta haust. Hversu biturlegt sem það kann að hljóma eftir mikla vinnu er það einu sinni gangurinn hér á þingi.

Nú kemur framkvæmdarvaldið með forsætisráðherra í broddi fylkingar og segir: Þið skuluð þá bara vera hér í allt sumar, eins og það sé svakaleg ógnun við stjórnarandstöðuna. Það er engin ógnun við stjórnarandstöðuna. Það er hins vegar ógnun við löggjafarvaldið. Það er meðal annars ógnun við það sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það hvernig Alþingi, löggjafarvaldið sjálft, ætlar að haga starfsemi sinni og starfsháttum í nútíð og framtíð. Ef guð lofar verða væntanlega valdaskipti innan árs og þá hefur sú ríkisstjórn sömu tækifæri og þessi ríkisstjórn. Hún bendir á yfirgang þessarar ríkisstjórnar við þingið og segir: Við getum þá gert eins og fyrri ríkisstjórn. Ég segi og brýni alla þingmenn, ekki síst í stjórnarmeirihluta: Breytið þessum vinnubrögðum, standið í fæturna gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar það sturtar niður gölnum málum eins og menn gera á lokadögum þingsins. Það er hægt að ná samkomulagi um fjölmörg mál, mikilvæg mál sem þurfa að fara í gegn. En geymið þau mál sem mesti ágreiningurinn stendur um því að þetta snýst ekki um ógnun ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnarandstöðunni, þetta snýst um ógnun gagnvart löggjafarvaldinu og hvaða vinnubrögð við viljum sjá til lengri tíma litið.