140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir mál hv. þm. Lilju Mósesdóttur að hann var sláandi þátturinn í gær um ástandið í Grikklandi, Grikkland evrusamstarfsins, Grikkland Evrópusambandsins. Spánn er í fréttum í dag, þar óttast menn að Spánn sé að falla. Evran lækkar í verði. Írar greiða atkvæði í dag um stöðugleikasáttmálann eða fjármagnssáttmálann eða hvað hann kallast. Ég segi það alveg eins og er og meina það þegar ég segi: Ég vona innilega Evrópusambandsins vegna að þeir samþykki þennan samning. Ef þeir gera það ekki, þá er mjög svart yfir Evrópusambandinu. Barroso heimtar meiri völd, meiri miðstýringu, heimtar að þjóðirnar í Evrópusambandinu gefi meira af fullveldi sínu en nokkru sinni fyrr til kommissaranna. 70% breskra íhaldsmanna vilja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um veru Breta í Evrópusambandinu.

Á Íslandi eru hins vegar stjórnvöld sem fylgjast ekki með þessu, sem láta eins og ekkert sé, sem hlusta ekki á fréttir og virðast ekki taka mark á því þegar erlendir aðilar, sérfræðingar sem jafnvel vöruðu hér við bankahruninu og sögðu að Íslendingar hefðu farið sér óðslega á sínum tíma vara við því núna að Evrópusambandið og sérstaklega evran sé líklega að hruni komin. Nei, áfram skal haldið, íslensk stjórnvöld berja hausnum við steininn.

Frú forseti. Ég vil líka nefna hér að það var sorglegt að verða vitni að því í gær, sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, hvernig atvinnuveganefnd hefur gersamlega brugðist hlutverki sínu. Meiri hluti atvinnuveganefndar hefur algerlega brugðist. Málin sem fóru algerlega kolvitlaus inn til nefndarinnar koma jafnvitlaus út úr henni aftur og þrátt fyrir að þúsundir manna hringinn í kringum landið séu búnir að leggja mikla vinnu í að koma athugasemdum á framfæri er ekkert tillit tekið til þeirra. Það er sorglegt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum á Alþingi.