140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[12:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og samstarfið í nefndinni í þessu máli. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins eigum sérnefndarálit í þessu máli en við erum í raun hlynntir hugmyndafræðinni sem frumvarpið byggir á eins og fram mun koma hjá framsögumanni nefndarálits okkar hér á eftir.

Það er eitt atriði sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um og það er gildistökuákvæðið. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. október 2012. Ég velti fyrir mér hvort við förum kannski of bratt í hlutina og hvort meiri hluti nefndarinnar hafi skoðað hvort það væri hugsanlega betra að miða gildistökuna við áramót.