140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ótrúlegt að hægt sé að vera svona svartsýnn á svona sólríkum degi. Ég vil nú hvetja alla þingmenn til að koma sér út úr þessum hrakspám og helfararspám hv. þingmanns og yfir í veruleikann og muna að það veiðigjald sem við erum að tala um nemur 10 kr., og innan við það, fyrir hvert þorskkíló og í því gríðarlega góða árferði sem nú er bætast liðlega 20 kr. við. Er það sá heimsendir sem þingmaðurinn lýsir? Nei.

Ef við auglýstum í blöðunum veiðileyfi fyrir liðlega 30 kr. á þorskkílóið mundu allir útgerðarmenn á Íslandi sækja um að fá þau leyfi og margir fleiri, þeir mundu sækja um miklu meira en hægt væri að ráðstafa vegna þess að þetta veiðigjald er ekki bara hóflegt, það er miklu lægra en sannvirði þess er á markaði, enda er hv. þingmaður tilbúinn að leggja á 10 milljarða veiðigjald. Er ekki staðreyndin sú, hv. þingmaður, að ágreiningur okkar snýst ekki um veiðigjaldið, hann snýst um hitt frumvarpið, fiskveiðistjórnarkerfið, (Forseti hringir.) og það hvort staðinn verði vörður um hagkvæmnina í kerfinu?