140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega ósammála hv. þingmanni hvað það varðar. Í grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins er einmitt lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að jafna búsetuskilyrði úti um allt land. Eins og þetta frumvarp er tel ég að raunar sé verið að auka skattpíninguna.

Hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ef hv. þingmaður færi í gegnum þá liði sem lagt er til að setja fjármuni í er þar fyrst og fremst nefnd atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík, og það kom fram í máli forsætisráðherra, að mig minnir, á fundinum að þarna ætti ekki að horfa til þeirra atvinnugreina sem skiptu hvað mestu máli úti á landi, sem er sjávarútvegur og landbúnaður.

Ég bendi á í tengslum við veiðigjaldið, ef því verður komið á, ef það er einhver leið til þess að þvinga það í gegn, að nú þegar borgar landsbyggðin mun meira en höfuðborgarsvæðið í opinbera sjóði en hún fær til baka. (Forseti hringir.) Það hefði því verið eðlilegt að landsbyggðin mundi þá alla vega fá einhverjar samgönguframkvæmdir, (Forseti hringir.) en hér er hins vegar verið að segja að það þurfi að skattpína hana enn frekar en (Forseti hringir.) gert er nú þegar.