140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Ég hef að vísu heyrt þær betri frá honum, mér fannst hann ekki alveg í stuði enda notaði hann að miklu leyti orð annarra en sín eigin í ræðunni. Við nafnarnir erum ósammála um margt í pólitík enda hvor í sínum flokki en þegar kemur að byggðamálum erum við sennilega á svipaðri blaðsíðu, og ég veit að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er mér sammála um að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur bitnað mjög rækilega á byggðum landsins. Er hægt að nefna þar um fjöldamörg dæmi þar sem menn hafa selt sig út úr greininni á einni nóttu og skilið byggðarlögin atvinnulega eftir í rjúkandi rúst. Núverandi kerfi hefur því líka haft gríðarlega slæm og afdrifarík áhrif á byggðarlögin hringinn í kringum landið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrri andsvari um þá upphæð sem hann telur hóflegt veiðileyfagjald. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spurði hv. þingmann svipaðrar spurningar en ég heyrði ekki á svari hans hvaða upphæð hann telur nákvæmlega hóflegt veiðileyfagjald. Í umræðunni hafa sjálfstæðismenn til dæmis nefnt 10–12 milljarða kr. til mótvægis við þá 15 milljarða sem gert er ráð fyrir í breyttu frumvarpi. Það hefur tekið miklum breytingum og þess vegna er ekki endilega sanngjarnt að vísa til umsagna um það óbreytt. Breytt gerir það ráð fyrir 15 milljarða kr. veiðileyfagjaldi og þá er spurningin: Hvaða tölu hefur formaður Framsóknarflokksins í huga í þessum efnum?