140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu viti er augljóst að ekki var tekið tillit til athugasemda frá sveitarfélögum eða öðrum sem skiluðu inn athugasemdum nema mögulega að einhverju pínulitlu leyti í þeim breytingartillögum sem hafa komið fram. Hitt er að vinnubrögðin eru að sjálfsögðu óásættanleg, eins og ég held að hafi komið fram í máli mínu. Það getur vel verið að ríkisstjórn á hverjum tíma sé með einhver mál sem hún vill hnoða einhvern veginn í ósköpunum í gegnum þingið í miklu ósætti en við erum að tala um grundvallarmál, eitt af þessum meginmálum sem þarf að vera sem mest sátt um. Það gengur ekki að eftir hverjar kosningar umbylti ný ríkisstjórn öllu sjávarútvegskerfinu eða reyni það í þrjú eða fjögur ár og sé með greinina í uppnámi allan tímann á meðan. Það eru alveg fáránleg vinnubrögð.

Svo er hitt, frú forseti, að auðvitað er alveg stórfurðulegt, af því að ég svaraði því ekki í fyrra svari mínu, að ekki hafi verið reynt að meta áhrifin beint á fyrirtækin og ekki síst á landsbyggðina. Auðvitað bera þeir landsbyggðarþingmenn sem samþykktu þetta úr sínum þingflokkum mikla ábyrgð á því að við séum í þeirri stöðu að fjalla hér um sérstakan skatt á landsbyggðina.

Ég verð að segja að það eru mikil vonbrigði að við landsbyggðarþingmenn skulum ekki geta staðið saman í því að sjá hvers konar áhrif þetta mun hafa á greinina. Svo veit ég að það eru líka margir skynsamir þingmenn í Reykjavík. Gleymum því ekki að 80–90% aflaheimilda eru úti á landi. Þetta er skattur á þau fyrirtæki fyrst og fremst, lítil fyrirtæki og stór. Gleymum því heldur ekki fyrir höfuðborgina og höfuðborgarbúa að mestur og stærstur hluti allra þjónustufyrirtækja í sjávarútvegi er á höfuðborgarsvæðinu. Hvaða áhrif halda menn að það hafi á þá atvinnugrein (Forseti hringir.) og atvinnuástandið á höfuðborgarsvæðinu ef það nær fram að ganga sem hér um ræðir?