140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hann byrjaði ankannalega, þessi þingfundur, í morgun þegar augljóslega lítill vilji til sátta kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra þar sem frekar var hnýtt í fólk hér inni vegna stjórnmálaskoðana eða fólk úti í samfélaginu sem hefur meðal annars staðið að því að byggja upp sjávarútveginn. Ég hóf því ekki endilega þennan þingfund með mikla birtu í hjarta. Síðan eru greidd atkvæði um lengd þingfundar, eðlilega, og þá bregst ekki að stjórnarliðar mæta eins og þeir eru ávallt kallaðir til en síðan er frekar lítið um fundarsetu, fyrir utan einn hv. stjórnarþingmann sem er svo sem betra en ekki neitt. Þetta lýsir að mínu mati almennt líka viðhorfi stjórnarflokkanna til þessa máls, það á bara að keyra það í gegn. Ég sit ekki í atvinnuveganefnd en er búin að hlusta á nokkurn veginn allar ræður hér í tengslum við þetta mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar. Við sjáum það á umsögnum sem nefndinni hafa borist og heyrum á þeim gestum sem hafa verið kallaðir fyrir nefndina að ekki hefur verið tekið tillit til neins sem heitið getur varðandi breytingar á þessu frumvarpi. Eftir situr að við munum, einu ári síðar að mig minnir, sitja uppi með 70% veiðigjald.

Ég mun fara aðeins yfir forsöguna, þau tækifæri sem blasa við okkur og þau viðbrögð sem við sjáum í greininni á landsbyggðinni. Ég vil þó ekki undanskilja suðvesturhornið heldur fara yfir það að þetta mál er ekki eingöngu landsbyggðarmál heldur líka þéttbýlismál. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að vel takist til eins og hefur tekist fram til þessa í megindráttum varðandi stjórn á fiskveiðiauðlindinni.

Það þarf ekki að hafa orð á því hversu seint þessi mál eru fram komin, það er búið að draga það svo oft fram, en það er ekki síst vegna baksagangs á milli stjórnarflokkanna. Menn hafa ekki í þessu máli frekar en mörgum öðrum, stjórnlagamálinu eða rammaáætlun, komið sér saman um hina endanlegu niðurstöðu. Við greinum strax hér í þinginu að menn innan stjórnarflokkanna eru ekkert endilega sammála um niðurstöðuna af þessum málum. Ég er ekki þar með að segja að menn innan stjórnarflokkanna muni síðan ekki styðja þennan óskapnað, við höfum reynsluna af því að þegar til stykkisins kemur ýta þeir alltaf á þann takka sem af þeim er krafist. Kannski er það gömul saga og ný líka.

Förum aðeins yfir það sem er að gerast í samkeppnisveröldinni sem tengist sjávarútveginum. Íslenskum sjávarútvegi hefur gengið betur í alþjóðlegri samkeppni en sjávarútvegi flestra annarra þjóða. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því, en við höfum ára-, áratuga- og aldalangar hefðir í sjávarútvegi og líka í útflutningi. Við höfum byggt upp í nokkurri sátt við náttúruna þekkingu sem hefur leitt til þess að hér hefur orðið gríðarlega mikil framleiðniaukning á sjávarafurðum.

Þó að við eyðum miklu minna en fyrir árið 1983 þegar aflinn var miklu meiri en hann er í dag, hátt í 500 þús. tonn — og höfum síðan skorið niður en ég kem að því á eftir — fáum við Íslendingar þrátt fyrir mun minni afla á land fleiri krónur fyrir þorskkílóið í dag en fyrir 30 árum, svo það sé sagt á einföldu máli. Það kemur til af því hvernig við höfum náð að þróa kerfið. Þar hafa margir komið að málum, m.a. vinstri mennirnir í ríkisstjórninni í dag sem breyttu kerfinu, að mig minnir 1989, og heimiluðu þá frjálst framsal veiðiheimildanna. Það var eitt af lykilskrefunum til að gera þessa atvinnugrein arðbæra. Það er þýðingarmikið fyrir okkur að við áttum okkur á því að okkur hefur engu að síður auðnast með aðkomu allra flokka að taka farsæl skref í þágu sjávarútvegsins. Ef það er í þágu sjávarútvegsins er það líka í þágu samfélagsins sem við byggjum upp. Við eigum svo auðvelt með að gefa ýmis loforð út á hagnað í sjávarútveginum. Við upplifðum það um daginn varðandi fjárfestingaráætlunina þar sem ríkisstjórnin kom með kosningaplagg sem byggði fyrst og fremst á því sem hún ætlar að ná út úr veiðigjaldinu, veiðiskattinum eins og það er réttilega kallað.

Á sínum tíma stóðum við Íslendingar einmitt frammi fyrir því að við hefðum getað farið sömu leið og Nýfundnaland. Við hefðum alveg getað farið nákvæmlega sömu leið ef stjórnmálamenn þess tíma sem stóðu frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum hefðu brugðist öðruvísi við. Þeir tóku ekkert endilega mjög vinsælar ákvarðanir, eiginlega frekar óvinsælar, m.a. eftir svarta skýrslu Hafrannsóknastofnunar, og skáru niður þorskaflann hér við land. Það er afar þungbært að sjá þann popúlisma sem síðan hefur einkennt sérstaklega einn stjórnmálaflokkinn, Samfylkinguna, þegar kemur að allri umræðu um sjávarútveginn í landinu. Það kannski kemur ekki á óvart en þá bregst ekki að Samfylkingin fari í kosningagírinn, hanni auglýsingar og reyni að bregða upp allt annarri mynd en er sönn og tengist sjávarútveginum. Þá eru tínd til einhver heiti sem sett eru á þá sem hafa unnið í sjávarútveginum, allt til þess að reyna að brengla fyrir almenningi myndina er tengist sjávarútveginum. Mér finnst það miður. Það er ömurlegt að fylgjast með því hvernig þessi stjórnmálaflokkur hefur talað niður sjávarútveginn, útgerðarmenn sem hafa í gegnum tíðina verið harðduglegir við að koma, ekki bara aflanum á land heldur nýta hann sem best og á hagrænan hátt.

Við stóðum frammi fyrir því á þeim tíma að veiðar voru óheftar. Það var komið skaðlegt kapphlaup um fiskinn í sjónum þannig að menn þurftu að bregðast við. Menn gerðu það og náðu með þeim breytingum að hámarka verðmæti leyfilegs afla. Með því að allir stjórnmálaflokkar kæmu að þessu, ég ætla að undirstrika að allir voru með, náðist að draga fram ákveðna langtímahugsun í sjávarútvegi sem er svo mikilvæg, en þessi langtímahugsun var klippt í sundur við síðustu kosningar. Þá var yfirlýst stefna stjórnarflokkanna, og er enn, að breyta öllu í sjávarútvegi. Þau ætla sér í fyrsta lagi að draga mjög úr varanleika og öryggi aflaheimilda og hvetja þannig fyrirtækin á ný til skammtímahugsunar sem er svo hættuleg, ekki bara í sjávarútveginum heldur á ýmsum öðrum sviðum í samfélaginu. Það þýðir að fjárfestingar verða ekki arðbærar. Landsmenn eru beinlínis hvattir til þess að fá sér báta, að fleiri skip fari á miðin og rói — til þess að sækja hvað? Jú, sama afla og fyrr. Það er ekki verið að fjölga fiskunum eða auka kvóta með þessu, það er verið að fjölga fiskiskipum. Það sjá allir sem eitthvert vit hafa á að slíkt leiðir til offjárfestingar og óarðbærni innan greinarinnar.

Þetta er eitt af því sem ríkisstjórnin er að gera. Menn ætla sér að fara í aukna miðstýringu. Það liggur alveg ljóst fyrir. Af hverju er ég að nefna það hér í tengslum við veiðigjaldið? Jú, eins og fulltrúar okkar í atvinnuveganefnd hafa meðal annars bent á er ekki alveg hægt að ræða frumvarp til laga um veiðiskattinn öðruvísi en að benda á þær kerfisbreytingar sem stjórnarflokkarnir ætla sér að koma í gegn. Það er alveg grímulaust. Þar ætla menn sér að fara í pólitískar úthlutanir, auka pottana þannig að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og aðrir sem á eftir honum koma geti farið að „víla og díla“ með þessar úthlutanir. Mér finnst það vond þróun. En þetta er alveg grímulaust. Við vitum þetta. Þetta er einn anginn af þeirri kerfisbreytingu sem stjórnarflokkarnir eru að beita sér fyrir. Síðan er ekki hægt að tala um nákvæmlega það sem við erum að ræða hér í dag, um þessa auknu skattlagningu í sjávarútvegi.

Eftir stendur að þrátt fyrir mikla umfjöllun nefndarinnar, marga gesti, mjög afdráttarlausar umsagnir, breytir meiri hluti nefndarinnar að mínu mati mjög litlu. Heildarmyndin er sú sama. Það er stefnt að gríðarlega mikilli skattlagningu á sjávarútveginn í gegnum þessa veiðiskattsleið.

Ég bendi á það kerfi sem við höfum byggt upp. Að hverju hefur það meðal annars stuðlað? Að auknu hagræði eins og ég hef komið inn á. Sumir segja fækkun í sjómannastéttinni. Já, það er rétt, færri sækja núna sjóinn en áður. Það eru færri útgerðarmenn en áður. Þeir eru misstórir, það eru ekki allir stórútgerðarmenn, þeir eru líka litlir og meðalstórir. Færri sækja sem sagt sjóinn beint. En hvað annað hefur gerst? Sú þekking sem við höfum náð að skapa, sú aukna vitund um að við þurfum að fá sem mest fyrir það sem við veiðum upp úr sjó, hefur stuðlað að því að við höfum komið upp öflugum sjávarklasa.

Það er afar mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við erum að hrista grunnstoðirnar eins rækilega og ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera. Ég vona innilega að þetta verði ekki til þess að þær molni allar undan þeirri merkilegu þróun sem hefur átt sér stað innan hins svokallaða íslenska sjávarklasa.

Ég bendi þingheimi og fleirum á þá merkilegu rannsókn og samstarfsvettvang sem átt hefur sér stað á umliðnum missirum sem varpa meðal annars ljósi á sjávarklasann íslenska, hversu mikla þýðingu hann hefur fyrir íslenskt samfélag. Grunnurinn er kerfið sem við erum að tala um. Svo kem ég að öðru á eftir, menn ætla að fara í að ógna ekki bara byggðum landsins með þessari gríðarlegu skattlagningu, heldur líka ýmsum þjónustufyrirtækjum, rannsóknarfyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, sem eru vítt og breitt um landið, en ekki síst á suðvesturhorninu. Þetta eru markvissar rannsóknir sem hafa átt sér stað.

Núna liggja fyrir upplýsingar um rúmlega 700 fyrirtæki sem starfa í sjávarklasanum á Íslandi. Þegar þessar athuganir eru skoðaðar betur liggur fyrir að starfsmenn í klasanum eru ríflega 12 þúsund talsins og það má gera ráð fyrir að óbein störf sem tengjast klasanum séu um 18 þúsund. Svo halda menn, t.d. forustumenn Reykjavíkurborgar, að sjávarútvegurinn skipti ekki máli, þeir leyfa sér að koma fram með þessar fullyrðingar, yppta bara öxlum og finnst þetta ekki hipp og kúl þegar ein helstu sprotafyrirtækin á suðvesturhorninu, nýsköpunarfyrirtækin, tengjast meðal annars uppbyggingu í sjávarútvegi.

Veigamesti partur sjávarklasans er að sjálfsögðu fiskveiðarnar og fiskvinnslan, við vitum það. Menn hafa talað um að innlend aðfangakaup nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja séu samanlagt tæp 20% aflahlutdeildar. Samkvæmt þeim rannsóknum, svo ég vitni í þær, sem gerðar hafa verið má rekja tæplega 19% landsframleiðslunnar til umsvifa í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. sem nemur rösklega 290 milljörðum. Það er líka ýmis iðnaður sem menn tengja ekki alla jafna við sjávarútveginn, eins og málmsmíði, sem á mest undir viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtæki, eða sem nemur tæplega 51%.

Umboðsverslun á 27% veltu sinnar undir sjávarútvegi. Orkufyrirtæki eiga um 15% undir sjávarútvegi. Samgöngu- og flutningsfyrirtæki og -starfsemi eiga 5–10% af sínu undir sjávarútvegi.

Þessi atriði verðum við að hafa í huga. Þau eru í hættu sem og þessi starfsemi þegar við förum í að umbylta því kerfi sem við höfum byggt upp. Ég er ekki að tala um að kerfið sé fullkomið, en ég er að tala um að við höfum þó í gegnum tíðina náð að fókusera á þá þætti sem skipta okkur máli og líka þá þætti sem ég taldi að sæmileg sátt væri um að menn mundu breyta.

Þá er ég komin að því sem ég tel skipta máli og tengir fortíðina við nútíðina. Innan ríkisstjórnarinnar halda menn í dag greinilega að þeir séu að finna upp hjólið. Ég hélt satt best að segja þegar sáttanefndin um sjávarútveg fór af stað að menn ætluðu svolítið að læra af reynslunni. Við skulum rifja það upp að í kringum 2000 voru hér miklar deilur, m.a. af hálfu þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins sem gagnrýndi mjög forustumenn þáverandi ríkisstjórnar. Menn drógu fram það sem hefur fram til þessa verið helsta bitbeinið í stóru stefnumörkuninni í sjávarútvegi, þ.e. að menn greiði gjald fyrir aðganginn að auðlindinni sem er meðal annars getið í 1. gr. núgildandi fiskveiðistjórnarlaga þar sem undirstrikað er að fiskurinn í hafinu sé sameign þjóðarinnar. Síðan lögðu menn áherslu á það að slíkt ákvæði ætti heima í stjórnarskránni.

Það voru mjög miklar og heitar umræður á sínum tíma í samfélaginu um nákvæmlega þessi atriði. Hvað gerðu menn? Jú, settu niður nefnd og þetta var ekki bara einhver nefnd. Menn segja að það sé svo langt síðan auðlindanefndin starfaði. En ef menn lesa nákvæmlega það sem stendur í skýrslu auðlindanefndarinnar er hún að draga það fram sem við erum enn þann dag í dag að ræða um. Það má segja að ákveðin tækifæri hafi farið forgörðum en önnur voru nýtt. Svo tala stjórnarflokkarnir, ekki síst Samfylkingin, stundum þannig til að villa um fyrir fólki, ekki bara þegar þau sletta og sífra um sægreifa og gjafakvóta — það var enginn gjafakvóti á sínum tíma, menn skulu hafa það hugfast að það var verið að skerða aðgang þeirra útvegsmanna og sjómanna sem höfðu sótt sjóinn. Það var verið að skera niður þá hlutdeild sem þeir höfðu haft til 1983 og veitt samkvæmt. Eins og Samfylkingin hefur talað á umliðnum árum er eins og ekkert veiðigjald sé í landinu.

Það var sett á veiðigjald árið 2002. Á hvaða grunni? Á þeim grunni sem við höfum meðal annars í auðlindanefndinni. Þáverandi forustumaður ríkisstjórnarinnar var nógu framsýnn, þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson, af því að hann skildi mikilvægi þess að sátt um sjávarútveginn þyrfti að ná til lengri tíma. Útvegsfyrirtæki þurftu ekki bara að fá frið heldur líka sjá að þau þyrftu að leggja ýmislegt af mörkum til að ná þessari sátt, ná þessum langtímafriði sem er svo æskilegur í þessari atvinnugrein. Þá settu menn niður þessa nefnd. Meðal annars var skipaður í nefndina mikill andstæðingur og gagnrýnandi þess kerfis sem hafði verið byggt upp, Styrmir Gunnarsson, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins.

Mér finnst þetta skipta máli af því að það sýnir einlæga viðleitni og vilja til þess að ná raunverulegri samstöðu, að þetta hafi ekki bara verið einhver „peu à peu“-nefnd, enda var það ekki. Þegar skýrslan er lesin sést að menn hafa lagt mjög mikið í þetta og að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, hvort sem það voru Margrét Frímannsdóttir fyrir Samfylkinguna, Svanfríður Jónasdóttir eða Jóhannes Nordal, lögðu sig greinilega fram um að reyna að ná einhverjum raunhæfum leiðum til að byggja upp þessa sátt.

Alþingi kaus þessa níu manna nefnd sem hafði það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum, öðrum óbyggðum löndum o.s.frv.

Nefndin átti að kanna, með leyfi forseta, „möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta“.

Þetta var allt kannað mjög vel. Nefndin setti fram sínar tillögur um leið og hún afmarkaði mjög skýrlega verkefnasvið sitt þannig að tillögur hennar urðu raunhæfar, nýtilegar og framkvæmanlegar fyrir stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina í landinu.

Nefndin dró meðal annars fram að mótuð yrði samræmd stefna og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapaði heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.

Við hljótum öll að vera sammála þessu.

Enn fremur segir í skýrslu auðlindanefndar, með leyfi forseta:

„Reynt verði eftir föngum að beita hagrænum stjórntækjum á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við.“

Nefndin lagði einnig til að eignarréttarleg staða þessara auðlinda yrði samræmd með þeim hætti að tekið yrði upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá þar sem þessar náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign eftir því sem nánar yrði ákveðið í lögum.

Hvað var gert? Það var farið í að setja á veiðigjald sem stæði meðal annars undir kostnaði ríkisins við það að halda uppi rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlindanna og síðan var reynt, m.a. í þeirri frægu stjórnarskrárnefnd sem Jón Kristjánsson leiddi, þáverandi þingmaður, en allt strandaði eins og margoft hefur komið fram í máli mínu í tengslum við umræðu um breytingar á stjórnarskránni á því að menn hafa talað eins og aldrei hafi verið vilji eða geta til að breyta stjórnarskránni. Það hefur samt margoft komið fram að við erum búin að breyta um það bili 40 greinum í stjórnarskránni og alltaf verið samkomulag um breytingar á henni. Það var síðan reynt eftir að þessi auðlindanefnd var búin að setja niður tillögur sínar. Menn komu saman á árunum 2003–2007, að mig minnir, en þá kom enn og aftur einn flokkur í veg fyrir að breytingar yrðu á stjórnarskránni í þessa veru. Af hverju? Af því að meðal annars við sjálfstæðismenn lögðum alltaf áherslu á að það yrði sátt um þær breytingar sem stjórnmálaflokkarnir legðu fram um stjórnarskrána. Samfylkingin kom í veg fyrir að nokkru yrði breytt í stjórnarskránni af því að hún sló upp skjaldborg um forsetaembættið, það mátti engu breyta eftir að forseti hafði beitt málskotsrétti vegna fjölmiðlamálsins. Þá var slegið upp þessari skjaldborg og varðstaða myndaðist um forsetaembættið sem stuðlaði að því að við náðum ekki þeirri breytingu sem var tillaga auðlindanefndarinnar um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hilmar Haarde, lagði síðan fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni sem er mjög sterk vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið reiðubúinn að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Ég get líka tekið það svona í framhjáhlaupi að það er margt í gögnum auðlindanefndar sem hægt er að tala um. Það er hægt að tala um rafsegulbylgjurnar og auðlindagjald sem hægt er að taka og á að taka, m.a. af því að takmarkanir á rafsegulbylgjum eru settar til símafyrirtækjanna og þau eiga að greiða fyrir það eins og þau gera líka.

Sagan sýnir okkur að það er hægt að ná lendingu ef menn leggja sig fram um það.

Við bundum vonir við að farið yrði eftir sáttanefndinni sem núverandi ríkisstjórn skipaði. Síðan kom í ljós að það var ekkert annað en sýndarmennska. Þegar niðurstaðan var forsætisráðherra og öðrum ráðherrum í ríkisstjórn ekki þóknanleg var hún blásin út af borðinu og farið í allt aðra vegferð sem hefur leitt til þess að hér er allt í uppnámi.

Samt er það þannig og ég hef bent á það margítrekað ásamt fleiri sjálfstæðismönnum, og ég greini það líka í máli framsóknarmanna, að það hefði verið hægt að ná samkomulagi um hóflegt veiðigjald. Það er ekki hóflegt sem við erum að ræða hér í dag, gjald sem ógnar lífsviðurværi fólks víða um land. Það er sorglegt að upplifa þetta aftur og aftur hjá þessari ríkisstjórn að ekki er hægt að reyna að greina aðalatriðin frá aukaatriðum og ná samkomulagi um stóru myndina.

Menn hafa talað svolítið um að þetta mál sé fyrst og fremst skattur á landsbyggðina. Mér finnst það skiljanleg nálgun þegar tæplega 80% útgerðarfyrirtækja eru á landsbyggðinni af því að þá eru það nákvæmlega fyrirtækin á landsbyggðinni sem greiða þennan skatt.

Ég get líka bent á það sem kemur fram í máli þeirra sem eru á Vestfjörðum eins og Jóns Þorgeirs Einarssonar þegar hann var spurður um þessi frumvörp á sínum tíma. „Þetta mun hafa skelfilegar afleiðingar, sérstaklega í mínu nærumhverfi sem er Vestfirðir,“ sagði hann. Þegar talað er um framlegð finnst honum gleymast að taka tillit til þess að útgerðin þarf meðal annars að borga vexti og afborganir af lánum. Þá fannst honum vanta mikið upp á að frumvarpið tæki tillit til þess hvað lánakostnaður útgerðarinnar væri mikill. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég bið ekki um annað fyrir mína útgerð en að fá að borga skuldirnar. Þegar það er búið er ég tilbúinn til að borga veiðigjald, en mér er meinilla við að vera settur á hausinn fyrir að hafa reynt að skapa hér atvinnu. Það hefur fiskast vel og við náð að borga af okkar lánum.“

Það er einmitt það sem þetta snýst um, herra forseti, að byggja hér upp arðbæran sjávarútveg sem fer í það að skapa verðmæti og auka gjaldeyri í landinu, og síðast en ekki síst að skapa störf. Einu störfin sem þessi ríkisstjórn er að gera í tengslum við þetta frumvarp — eru hver? Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að nokkur kostnaður muni falla til hjá Fiskistofu við að framkvæma og fylgja eftir þeim breytingum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ekki liggur fyrir, eins og segir í álitinu, heildstæð áætlun um þann kostnað en lausleg áætlun gerir ráð fyrir að stofnunin þurfi að bæta við sig fjórum sérfræðingum, m.a. á sviði lögfræði og reikningshalds, til að anna auknu hlutverki við álagningu og innheimtu veiðigjalda. Áætlað er að laun og starfstengdur kostnaður Fiskistofu vegna þessa verði 40 milljónir.

Það á sem sagt að bæta við. Það er fínt, þetta er heima í Hafnarfirði, Fiskistofa, fjögur störf, en er þetta sú staða og sá rammi sem ríkisstjórnin vill hafa? Það er augljóst. Hún vill fjölga ríkisstörfum og fækka þeim störfum sem tengjast greininni sjálfri. Ég kem aðeins síðar inn á álit fjárlagaskrifstofunnar.

Við sjáum líka fleiri landsbyggðarmenn draga fram hvað þetta þýðir, m.a. segir Garðar Ólafsson, útgerðarmaður í Grímsey, með leyfi forseta:

„Það verða tugir milljóna sem ríkið ætlar að hirða af þessu litla sveitarfélagi. Hér eru allir eyðilagðir yfir þessu, að það sé verið að leggja algjörlega í rúst þennan atvinnuveg sem hefur haldið þjóðinni uppi í gegnum aldirnar. Ég skil ekki þessa sífelldu umræðu um þjóðarsátt. Við sem höfum verið að reyna að berjast á sjónum og reyna að skapa gjaldeyri erum sennilega ekki hluti af þjóðinni.“

Þetta eru stór orð en ríkisstjórnarflokkarnir hlusta ekki. Kerfinu skal breytt, það skal auka miðstýringuna og minnka markaðsdreifinguna og markaðssetninguna í þessu öllu saman til þess eins að Samfylkingin og Vinstri grænir geti komið sínum stefnumálum að. Gott og vel, út á það gengur væntanlega pólitíkin en um þetta verður þá talað og barist hér. Ég er á móti þessu. Þess vegna vil ég ekki að ríkisstjórnin komist upp með þetta. Þess vegna er ég að nýta mér minn lýðræðislega rétt hér og hafna því sérstaklega, eins og fleiri þingmenn í stjórnarandstöðunni, að menn geti ekki komið hérna upp af því að þá er maður eingöngu að tala fyrir hagsmunum útgerðarmanna. Þetta er samfélagslegt mál og eins og ég sagði áðan sýni ég því skilning ef menn eru að tala um að þetta sé eingöngu landsbyggðarmál. En þetta er ekki eingöngu landsbyggðarmál, þetta eru hagsmunir okkar allra og mér finnst sárt að sjá þá lítilsvirðingu, bæði sem forustumenn Reykjavíkurborgar en ekki síður heima í Hafnarfirði, sýna þessari grunnundirstöðuatvinnugrein því að menn hafa ekki einu sinni skoðun á þeim breytingum sem menn innan ríkisstjórnarflokkanna reyna að knýja hér í gegn.

Það er alveg merkilegt að þessir stóru, gömlu og rótgrónu útgerðarbæir á suðvesturhorninu, Reykjavík og Hafnarfjörður, skuli ekki reikna út fyrir sína parta hvaða áhrif þetta muni hafa á þau sveitarfélög.

Ég var að tala hér um sjávarklasa. Halda menn virkilega að þetta hafi ekki nein áhrif á nýsköpunarfyrirtækin á þessu svæði? Við erum að reyna að koma upp alls konar sprotafyrirtækjum. Ég gæti farið með forsætisráðherra í leiðangur heima í Hafnarfirði til að sýna henni hvaða fjölbreyttu fyrirtæki tengjast sjávarútveginum beint og óbeint. En menn sýna þessu engan áhuga af því að það er bara gripið í einhverja innihaldslausa frasa til að tortryggja ákveðna stétt manna. Það finnst mér miður og því mótmæli ég.

Eftir að hafa hlustað á umræðuna hér hef ég orðið þess vör að einn hv. stjórnarþingmaður hefur komið í andsvör, Kristján Möller. Hann hefur borið fram skiljanlega spurningu um það hver veiðiskatturinn eigi að vera ef fiskveiðistjórnarkerfið verður algjörlega óbreytt. Það er þetta ef og hefði. Ég væri alveg til í að taka þá umræðu við hv. þingmann og fleiri ef við vissum forsendurnar fyrir því að stjórnarþingmennirnir hafa verið að tala um að útvegurinn eigi að greiða sambærilegt gjald og vera með svipaðan tíma og aðrar atvinnugreinar varðandi nýtinguna. Þá skulum við fara í þá umræðu. Við samþykktum á þinginu 65 ára nýtingarrétt vegna orkunnar. Varðandi sjávarútveginn er verið að tala um 20 ár.

Það er ýmislegt fleira sem hægt er að tala um, m.a. að draga fram það sem skiptir útvegsmenn miklu máli, að menn sjái fram á að ekki verði alltaf átt við kerfið á fjögurra ára fresti, að gerðir verði samningar til lengri tíma en þess sem um ræðir. Þegar við erum búin að koma okkur saman um stóra rammann, þessar forsendur, hvernig við getum hugsað saman til lengri tíma um það hvernig við ætlum að hafa sem mest hagræði innan sjávarútvegsins, er hægt að tala um veiðigjald. Ég hef margoft sagt og er algjörlega ófeimin við það, hef stundum verið gagnrýnd fyrir það innan míns flokks, að varðandi sjávarútveginn, rafsegulbylgjurnar og ýmislegt fleira ættu menn að borga fyrir aðganginn að náttúruauðlindum. Þar er sjávarútvegurinn ekki undanskilinn. (Gripið fram í.) Það sem má ekki gerast er að menn, hvort sem eru innan stjórnarflokkanna eða annars staðar í samfélaginu, nýti þessi sjónarmið til að fara í galnar og geggjaðar skattahækkanir á eina atvinnugrein umfram aðra.

Ég vil að hér sé rekinn góður og öflugur útvegur sem skapar störf og tekjur fyrir samfélagið þannig að við getum, m.a. við sem höfum mikinn áhuga á menntamálum, rannsóknum, vísindum, íþróttum o.fl., fengið fjármagn í það (Gripið fram í.) og haldið því uppi. Það gerist að mínu mati ekki með því að búa svona um hnútana. Og nú kem ég að því sem segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar, að það verði hægt að tala um að þessari atvinnugrein verði kálað innan tíu ára. Af hverju segi ég það? Er eitthvað smart að tala digurbarkalega? Nei, ekkert sérstaklega, en maður verður bara að vera raunsær.

Hvað segir í áliti fjárlagaskrifstofunnar?

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að nokkur næstu ár“ — þetta er nú reyndar mjög furðulegt orðalag og gefur til kynna að óvissan sé mjög mikil, og með þessu frumvarpi verður óvissan enn meiri fyrir útgerðina — „geti tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum orðið um og yfir 20 milljarðar kr. á ári að því gefnu að rekstrarskilyrði í sjávarútvegi verði áfram með besta móti.“

Þessu hefur aðeins verið breytt. Nú erum við komin niður í 15 milljarða, segir meiri hlutinn, en ekkert gefur til kynna að hægt sé að rökstyðja það svo heitið geti, enda stendur eftir að 2016 verði komið 70% veiðigjald.

„Það er um 9 milljarða kr. umfram áætlaðar tekjur af veiðigjaldi í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015. Til að byrja með yrðu tekjurnar þó 1–2 milljörðum kr. minni vegna lægri veiðigjalda á tveimur fyrstu fiskveiðiárunum samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.“

Hvað er verið að segja hér? Við hvaða forsendur miðar fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins? Hún miðar við það að gengið verði áfram lágt hérna þannig að hún er að miða við lágt gengi krónunnar og að þannig eigi að hala það inn.

Hvað segir síðan í forsendum kjarasamninga? Hvað segir ASÍ? Hverjar eru forsendurnar til að kjarasamningar haldi? Það er 20% raungengishækkun í kjarasamningum. Það mun reyndar ekki ganga á þessu ári og alls óvíst að það gangi upp á næsta ári. Forsendur ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðuneytisins, eru þvert á það sem hún hefur skuldbundið sig síðan í kjarasamningum. Ríkisstjórnin verður að fara að tala hreint út við kjósendur, við almenning.

Miðað við þær forsendur sem ríkisstjórnin leggur upp með í veiðigjaldinu, þeim veiðiskatti sem við erum að tala um, miðar hún við að gengi krónunnar verði áfram lágt næstu árin. Það þýðir meðal annars minni kaupmátt fyrir heimilin og minni hagvöxt. Og það vinnur gegn forsendum og markmiðum stöðugleikasáttmálans. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki hægt að vinna svona, herra forseti.

Þetta ber allt að sama brunni. Menn tala aldrei hreint út í þessum málum. Það er alltaf verið að draga upp einhverja aðra mynd af útgerðinni og sjávarútveginum en þá sönnu.

Það sem er þýðingarmikið í þessu öllu saman er að menn átti sig á því að enn eru tækifæri fyrir stjórnarflokkana til að ná niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við. Ég er ekkert að tala um að það eigi að gefa allt eftir. Ég er ekki að biðja um það, ég er að biðja um að menn nái hér skynsamlegri niðurstöðu. Sú leið sem ríkisstjórnin fer hér er ekki skynsamleg. Ég bið menn að hlusta á það sem hefur komið fram, m.a. í umsögnum til nefndarinnar.

Ég batt vonir við að breytingar yrðu þegar ég heyrði suma stjórnarliða segja að það þyrfti að breyta þessu máli, það væri mjög erfitt. Þegar til stykkisins hefur komið hafa þær breytingar hins vegar gengið mjög skammt. Það má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og lítil mús fæðst. Þetta var bara tal, enn eitt skiptið var þetta bara tal af hálfu stjórnarflokkanna. Jú, það eru ákveðnar breytingar sem hjálpa ekki síst skuldsettum fyrirtækjum en stóra myndin er engu að síður sú sama, menn ætla algjörlega óhikað að stórauka álögur á útgerðina sem getur haft gríðarlegar afleiðingar um landið allt.

Eftir að þetta mál kom til umfjöllunar í nefndinni hefur ekki komið fram nein rækileg greining eða útreikningur á áhrifum þessarar útfærslu á afkomu og stöðu útgerðarinnar. Síðan mæta þingmenn Samfylkingarinnar, m.a. í atvinnuveganefnd, og kvarta yfir því að fulltrúar okkar í nefndinni biðji um útreikninga, biðji um að fá sérfræðinga til sín til að vega og meta niðurstöðurnar. Það var reyndar alveg klárt af hálfu ákveðinna sérfræðinga, Daða Más Kristóferssonar o.fl., að þessar breytingar hefðu ekki teljandi áhrif til batnaðar. Það var alveg skýrt. Heildaráhrifin er hins vegar ekki hægt að fá metin.

Við verðum að átta okkur á því að þegar við erum að ræða um veiðigjaldið er erfitt að tala um áhrif þess án þess að menn ræði líka fiskveiðistjórnarmálið sem hefur ekki fengist rætt og að ég best veit ekki fengist afgreitt út úr nefndinni. Við verðum að sjá að það er samhengi á milli fjárhæðar veiðigjaldsins og þeirra breytinga sem menn ætla sér að gera á sjálfu stjórnkerfi fiskveiðanna. Það verður að ræða þetta í heild. Menn verða að skoða þetta, sjá hvað hægt er að gera til að menn geti sett fram skynsamlegar breytingar.

Með þessu er ég ekki að segja nei við veiðigjaldi. Ég hef ávallt verið talsmaður þess að menn greiði gjald eins og fyrir rannsóknirnar, á móti kostnaði ríkisins við að sinna auðlindinni. Það er hægt að leggja á hóflegt veiðigjald en það er ekki hægt að sýna fram á að sú leið sem er farin núna sé hófleg. Öll gögn benda til annars.

Þess vegna spyrna menn við fótum. Menn eru ekki að tala út í bláinn, menn spyrna við fótum af því að öll gögn benda til þess að leið ríkisstjórnarinnar sé hættuspil.

Þess vegna tek ég undir það sem ritstjóri Fréttablaðsins hefur dregið fram í leiðurum. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsmálin eru ekki eina stóra málið, þar sem núverandi ríkisstjórnarflokkar bruna áfram í blindni og taka ekkert mark á varnaðarorðum, jafnvel þótt þau komi frá sérfræðingum sem hafa haldbestu þekkinguna í viðkomandi málaflokkum.“ — Ég er ekki að biðja um að taka endilega mark á varnaðarorðum okkar. — „En þetta mál er einfaldlega veigameira en svo að hægt sé að ana áfram og gá svo seinna hvort hrakspárnar rætist.

Hér er hvorki meira né minna en ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar í húfi. Menn geta sagt sem svo að fiskur verði veiddur áfram þótt frumvörpin gangi í gegn. Það er líka veiddur fiskur í mörgum nágrannalöndum okkar, bara ekki með neinum hagnaði fyrir viðkomandi hagkerfi af því að þar hefur sjávarútveginum verið breytt í miðstýrðan bónbjargaatvinnuveg. Hættan er sú að það gerist líka hér, staldri menn ekki við og vinni málið betur.“

Ég held að vart sé hægt að orða þetta betur en ritstjóri Fréttablaðsins gerir í leiðara sínum. Staldrið við, það eru mín skilaboð til stjórnarflokkanna. Vinnið málin betur. Hlustið á það sem fólk hefur sagt í þessu máli því að það er hægt að ná skynsamlegri niðurstöðu ef offorsið er ekki látið ráða för.