140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði hv. varaformaður atvinnuveganefndar og hér er hrópandi misskilningur á ferðinni. Misskilningur sem við verðum vör við á fundum nefndarinnar. Á hverjum einasta fundi misskilja hv. þingmenn þar sérfræðingana, misskilja ummæli þeirra. Daði Már Kristófersson sagði að útgerðin gæti mögulega staðið undir þeim veiðigjöldum sem lögð eru á samkvæmt þessu frumvarpi (Gripið fram í.) — miðað við óbreytt kerfi. Þetta væru mjög há gjöld, þau yrðu mjög erfið fyrir greinina en hún gæti staðið undir þeim miðað við að fiskveiðistjórnarkerfinu yrði ekki breytt.

En hann sagði líka, þegar breytingartillögur meiri hlutans við það frumvarp lágu fyrir, að gagnrýni hans stæði óbreytt, skýrslurnar stæðu óbreyttar. Svo heldur varaformaður nefndarinnar því fram að hún hafi ekki heyrt þetta, hún skilji þetta öðruvísi. Það þarf einhverja einkatíma í skóla í þessum (Forseti hringir.) fræðum fyrir það fólk sem starfar í þessari nefnd. Og að segja að ASÍ hafi talið að útgerðin stæði undir þessu veiðigjaldi — það er bara allt annað en kom fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum ASÍ, allt annað. (Forseti hringir.) Að halda þessu fram er annaðhvort stórkostlegur misskilningur og mistök af hálfu varaformanns nefndarinnar (Forseti hringir.) eða að hún skilur málið ekki betur og ætti að segja sig frá því.

Það eru ekki boðleg vinnubrögð, þegar fjallað er (Forseti hringir.) á þennan hátt um fjöregg þjóðarinnar, að (Forseti hringir.) varaformaður atvinnuveganefndar skuli opinbera skilningsleysi sitt á þörfum greinarinnar (Forseti hringir.) og á þeim umsögnum sem helstu umsagnaraðilar okkar (Forseti hringir.) og sérfræðingar sem unnið hafa fyrir nefndina hafa borið á borð hennar.