140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann um að halda ró sinni, það er ekki ástæða til annars. (JónG: Nei, það er ástæða til að æsa sig.) Við skulum nú sjá hvernig þessu vindur fram. Við erum með miklar áætlanir um að koma auðlindarentunni aftur út í samfélagið og það mun verða til þess að auka hagvöxt í landinu. (JónG: Frasi.)

Við munum nýta veiðigjaldið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, svo að hann sé færari til þess að styrkja við velferðarkerfið í landinu, við mundum þá borga lægri vexti og hefðum meiri afgang til góðra mála, í menntakerfið og velferðarkerfið. Við munum á næsta ári nota um 7 milljarða í tæknigreinar, rannsóknir, í græna hagkerfið og síðast en ekki síst í að fara út í öflugar samgönguframkvæmdir í landinu. Þetta mun allt skila byggðum landsins auknum hagvexti og velferð og ég er strax farin að hlakka til.