140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, vinnubrögðin, málflutningur og staðfesta stjórnarliða á bak við þetta mál er byggð á veikum grunni enda benti hv. þingmaður á þá augljósu þversögn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við sjálfan sig sem sést þegar við lesum Útveginn frá árinu 1997. Þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, Steingrímur J. Sigfússon, sagði þá, með leyfi frú forseta:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur.“

Þetta er sami stjórnmálamaðurinn og leggur núna til gríðarlega mikla skattlagningu á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar sem er að 85 eða 90% leyti á landsbyggðinni. Á sama tíma höfum við horft upp á sama stjórnmálamann og -flokka, Vinstri græna og Samfylkingu, ráðast með mjög afgerandi hætti gegn velferðarkerfinu í sömu byggðarlögunum með niðurskurði á heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu og fleira getum við nefnt. Nú á að gefa enn í með því að sækja skatttekjur til þessara byggðarlaga. Hvað finnst hv. þingmanni um þá byggðastefnu og sýn sem birtist hjá þessari ríkisstjórn gagnvart hinum dreifðu byggðum? Ég minni á að Samfylkingin fór fyrir síðustu kosningar fram með mál sem átti að vera störf án staðsetningar og við héldum að það ætti sérstaklega að fjölga störfum á landsbyggðinni. Þvert á móti var fyrsta starf og held ég það eina sem var auglýst án staðsetningar forstaða fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem var síðan sett niður í 101 Reykjavík.

Það virðist allt vera öfugsnúið sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, því miður, og allt ætlar henni að verða að óhamingju í þessu máli sem og mörgum öðrum.