140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þykist vita að hv. þingmaður þekki eitthvað til stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum, að minnsta kosti hefur hv. formaður atvinnuveganefndar, Kristján L. Möller, verið mjög duglegur í ræðustóli Alþingis að lýsa stefnu Framsóknarflokksins og annarra flokka í sjávarútvegsmálum, reyndar allra annarra en Samfylkingarinnar sem fór fram með fyrningarleið sem var sem betur fer ekki farin. Það hefði trúlega verið versta leiðin.

Hvað varðar þetta réttlæti, nýliðun o.fl. höfum við framsóknarmenn lagt til ákveðnar pottaskiptingar í þeim efnum. Þær eru reyndar mjög langt frá hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar. Hún vill fara mjög bratt í breytingar en við viljum taka tillit til þeirra sem hafa keypt sig inn í greinina á undangengnum árum vegna þess að miklar skerðingar hafa átt sér stað. Nálgun okkar framsóknarmanna gagnvart því annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar er sú að ríkisstjórnin vill fara í miklu (Forseti hringir.) brattari aðgerðir gagnvart þessum pottum.