140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið talað mikið um sjávarútvegsmál og ekki bara við meðferð þessa máls í þinginu heldur á þessu kjörtímabili. Þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn hafa farið fram með þann málflutning, bæði í kosningabaráttu sinni fyrir síðustu alþingiskosningar og hér í þinginu, að breyta þurfi fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Þau orð eru notuð sem leiðsögn af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að leita þurfi réttlætis. Hæstv. forsætisráðherra sagði í dag að tilgangurinn væri að auka jafnræði. Stjórnarliðum hefur síðan orðið tíðrætt um það hér í dag að allt sé þetta gert í þágu almannahagsmuna. Þá hefur í umræðunni borið á því að tilgangurinn með veiðigjaldinu, eða þessum landsbyggðarskatti sem gengur undir heitinu veiðigjald, sé sá að færa arðinn af þessari þjóðareign til fólksins í landinu.

Frú forseti. Staðreyndin er sú að þetta er ekkert annað en landsbyggðarskattur og það verður hverjum manni ljóst sem les það mál sem fyrir liggur sem og þau gögn sem því fylgja og þær fjölmörgu umsagnir sem bárust vegna málsins. Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að sjaldgæft er að sjá hér í þinginu annað eins framboð af neikvæðum umsögnum um eitt mál.

Ég fullyrði að hér sé um landsbyggðarskatt að ræða vegna þess að þessi veiðiskattur er langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins og hann mun veikja sjávarútvegsplássin hringinn í kringum landið en 80–90% aflaheimilda hefur verið úthlutað til skipa sem gerð eru út á landsbyggðinni. Það er því ljóst að veiðigjaldið er ekkert annað en landsbyggðarskattur, það er algjörlega skýrt. Slík skattheimta mun augljóslega hafa þær afleiðingar að laun sjómanna og annarra í sjávarútvegi, þar á meðal landverkafólks, munu lækka. Það er algjörlega kristaltært að fyrirtækin munu þurfa að hagræða enn frekar til að mæta þeirri auknu skattheimtu og verður það ekki til að skila meiri arði heldur til að reyna að lifa af atlögu stjórnvalda að greininni. Niðurstaðan er sú að störfum mun fækka.

Áður en ég fer betur efnislega yfir frumvarpið langar mig að fara í örstuttu máli yfir þau markmið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað fyrir. Við skulum byrja á því að hugsa aðeins um réttlæti, hvað átt sé við með því að færa meira réttlæti inn í kerfið. Eins og málið blasir við á að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu á þann veg að nýliðun aukist, að þeim fjölgi sem geti sótt sjóinn og veitt og komist inn í kerfið. Það er í sjálfu sér göfugt markmið en það þarf að skoða aðeins forsendurnar að baki því. Hvað er átt við? Hversu mikið á opna þetta? Hversu mikil á fjölgunin að verða þar til réttlæti er náð? Hvenær er það tímamark? Er það þegar allir sem hafa minnstu löngun til að fara á sjó og verða hluti af kerfinu geta það? Er réttlæti þá komið á? Hver er hugsunin á bak við þetta?

Hæstv. forsætisráðherra talaði í dag um jafnræði borgaranna. Það leiðir ósjálfrátt hugann að því að í þessu máli er verið að leggja til skattheimtu á eina atvinnugrein, aðeins á sjávarútveginn. Eru engin jafnræðissjónarmið þar sem við þurfum að skoða? Hvers vegna er enginn í stjórnarliðinu að velta því fyrir sér? Er þá jafnræði meðal atvinnugreinanna og atvinnuveganna í landinu? Hvers vegna eru þær hugmyndir um að færa arðinn til fólksins og að auka skattheimtu á þessa einu grein — hvers vegna erum við ekki að tala um einhverjar almennar breytingar á skattkerfinu? Nóg hefur nú verið fundið upp af nýjum sköttum. En ég get ekki séð, í ljósi þess að verið er að taka eina atvinnugrein sérstaklega út, að meiri hluti Alþingis sé að fara fram með jafnræði að leiðarljósi. Ég get ekki séð það samhengi þegar þetta er hugsað til enda.

Því hefur líka verið haldið fram af hálfu stjórnarliða að það flokkist undir almannahagsmuni að breyta kerfinu á þann hátt að fleiri geti tekið þátt í veiðum. Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og það kerfi sem komið var á hefur í för með sér að sjávarútvegurinn, við þær aðstæður sem nú eru, gengur mjög vel. Þegar við eigum svona sterka grundvallaratvinnugrein eigum við að sjálfsögðu að hlúa að henni, það er það sem allar þjóðir á byggðu bóli gera. Hér er hins vegar verið að rugga bátnum það mikið að engin skip eru á sjó í dag. Menn hafa það miklar áhyggjur að í dag voru í gangi fundarhöld hjá sjómönnum, meðal annars í Vestmannaeyjum. Á morgun verður stór fundur hjá Brimi í Reykjavík en öllum þingmönnum hefur verið boðið að sitja hann. Þar á að fara yfir miklar áhyggjur sjómanna, útvegsmanna og annarra sem starfa í greininni af þessum málum.

Á stóra fundinum í Vestmannaeyjum í dag mættu rúmlega 400 manns, sjómenn, landverkafólk o.fl. en sá samstöðufundur var haldinn í Höllinni í Vestmannaeyjum. Voru það stéttarfélög sjómanna og landverkafólks sem héldu þann fund, stóðu fyrir honum. Á fundinum var samþykkt ályktun sem lýsir því mjög vel, að mínu viti, hvernig fólki líður sem er að bíða með öndina í hálsinum eftir niðurstöðu Alþingis, bíður eftir því hvað kemur út úr þeirri vinnu sem atvinnuveganefnd stendur í. Í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Frumvörpin um sjávarútveginn sem liggja nú fyrir Alþingi eru klárlega aðför að kjörum sjómanna og landverkafólks.“

Frú forseti. Það hefur verið margítrekað af hálfu þeirra stjórnarliða sem tekið hafa þátt í umræðunni að ekki sé ætlunin að hrófla neitt við kjörum sjómanna og landverkafólks. En þær stéttir, það fólk sem vinnur þessi störf og vinnur í greininni sér það í hendi sér að auðvitað mun þessi stóraukna og íþyngjandi skattheimta hafa áhrif á störf þess, nema hvað. Við sjáum það jafnframt í mati allra þeirra sérfræðinga sem skilað hafa áliti í þessu máli.

Í gær fögnuðum við sjómannadegi. Hann er haldinn hátíðlegur til að heiðra sjómenn, minnast þeirra sem fallið hafa, tala um öryggi sjómanna og heiðra þá sem staðið hafa vaktina í björgunarmálum og slysavörnum. En dagurinn í gær var afskaplega skrýtinn. Ég átti þess kost og var lukkuleg með það að fá að vera á sjómannadegi í Vestmannaeyjum. Þar var að sjálfsögðu blíðviðri mikið og mikil stemning. Það er mjög gaman að sækja Eyjamenn heim enda eru þeir mjög gestrisnir. En maður fann það á öllum þeim fjölmörgu sem maður hitti þar hvað þessi óvissa hefur mikil áhrif á þá sem starfa í greininni. Sjómannadagurinn var í gær haldinn í mikilli óvissu, óvissu um framtíð íslensks sjávarútvegs og þar af leiðandi um framtíð allra þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af því að sækja sjóinn og um framtíð allra sjávarbyggða hringinn í kringum landið.

Mér finnst stundum í umræðunni, bæði hér á þingi og eins í fjölmiðlum, að við Íslendingar höfum mörg hver gleymt því hvar rætur okkur liggja, höfum gleymt því að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Það er svolítið súrt að hugsa til þess að sú óvissa sem menn horfast í augu við núna kemur ekki til út af náttúruhamförum, eins og stundum hefur gerst, hún kemur ekki til út af aflabresti eða neinu slíku, hún er sköpuð af stjórnmálamönnum, hún er sköpuð af okkur sem stöndum hér og vinnum í þessu húsi. Og allt er það gert í nafni réttlætis. Ég felli mig ekki við að nota það orð, orðið réttlæti, þegar lögð eru fram mál sem hafa þessi áhrif á alla þá sem starfa í greininni. Menn eru mjög óvissir um sinn hag, þeir sérfræðingar sem veitt hafa umsögn um málið telja það vega að grunni sjávarútvegsfyrirtækjanna vegna þess að skattheimtan sem lögð sé til sé alltof mikil og íþyngjandi.

Frú forseti. Það fiskveiðistjórnarkerfi sem við innleiddum hér á landi á síðustu öld hafði ákveðnar afleiðingar. Áður en það kom til þurftu miklir fjármunir almennings að koma til til að halda útgerðinni gangandi. Þeir sem muna þá tíma muna eftir bæjarútgerðunum, muna eftir eilífum fjárframlögum úr ríkissjóði inn í kerfið. Þess vegna var ákveðið að setja kvótakerfið á og það hefur verið þróað og því hefur verið margbreytt frá þeim tíma. Víðast hvar erlendis er horft til okkar kerfis sem fyrirmyndar um það hvað hægt er að gera með þessa miklu auðlind. Við Íslendingar eigum miklar auðlindir, og ekki síst tengdar sjávarútveginum. Við eigum að bera virðingu fyrir því að við, þessi fámenna þjóð, eigum þá miklu auðlind að geta haldið uppi öflugu velferðarsamfélagi og góðu menntakerfi með arði og tekjum inn í ríkissjóð af þeim atvinnugreinum sem hér eru stundaðar. Þar er sjávarútvegurinn ekki síðastur í röðinni, okkar grundvallaratvinnugrein.

Breytingarnar sem urðu á samfélagi okkar þegar fiskveiðistjórnarkerfið var innleitt voru erfiðar, þær leiddu til fækkunar fiskiskipa, fækkunar sjómanna og fækkunar fiskvinnslustöðva og til mikillar hagræðingar í greininni. En það var einfaldlega þannig að nauðsynlegt var að fara í þær aðgerðir. Skipin voru of mörg, það skilaði of litlu í kassann svo að nauðsynlegt var að hagræða. Breytingarnar voru mjög sársaukafullar og það er eflaust þess vegna sem skoðanakannanir hafa sýnt okkur, allt frá því kerfið var innleitt, að óánægja er með kerfið. En kostir kerfisins eru þeir að ríkisstyrkir eru úr sögunni og landsmenn þurfa ekki að búa við stanslausar gengislækkanir vegna hagsmuna sjávarútvegsins. Hagræðingin kostaði störf á sínum tíma en hún skilaði þjóðinni jafnframt auknum arði af fiskveiðiauðlindinni, skynsamlegri fjárfestingu í greininni og styrkti krónuna.

Andstæðingar þessa kerfis stjórna nú landinu og hafa lagt fram á Alþingi þau frumvörp sem ég nefndi áðan, bæði það sem við ræðum núna og stóra málið varðandi umbyltinguna á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þau fela í sér stórfellda skattheimtu og hafa í för með sér að taka á fjármuni frá sjávarútvegsfyrirtækjunum og þeim sem þar starfa, sem annars færu í fjárfestingu og styrkingu útgerðarinnar og vinnslu, og útdeila þeim til ýmissa verkefna. Það er meira að segja búið að leggja það fram í hvað peningarnir eiga að fara. Það hefur verið tilkynnt í hvað eigi að eyða þeim áður en búið er að fara með málin í gegn í þinginu.

Við vitum að hart er í búi hjá íslenska ríkiskassanum. Allir vita að leggja þarf sitt af mörkum. Það vita þeir líka sem starfa í sjávarútvegi. Þannig er það. Næstu ár, á meðan við erum að koma okkur upp úr efnahagslægðinni og ná tökum á ríkisfjármálunum, verða hlutirnir erfiðir og allir þurfa að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. En það réttlætir ekki að skattleggja grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar undir drep þannig að framfarir verði engar, fjárfestingar verði engar, hagræðingin minnki, störfum fækki o.s.frv. Afleiðingarnar af því verða á endanum minni tekjur í ríkiskassann, óhagræði verður í greininni o.s.frv. Þess vegna tel ég að ekki sé hægt að segja að með þessum málum sé verið að vinna að almannahagsmunum, ég get einfaldlega ekki séð rökin fyrir því.

Við sjáum að viðbrögðin við þessum málum hafa öll verið á einn veg, hvort sem við tölum við sjómenn, sveitarstjórnarmenn, útgerðarmenn, landverkafólk eða aðra sem eru í afleiddum störfum tengdum sjávarútvegi eða tengjast einfaldlega einhverjum sem starfar í sjávarútvegi. Við höfum fengið álit frá helstu sérfræðingum okkar og þau hafa meðal annars verið birt sem fylgiskjal með nefndarálitum í þessu máli. Þar kemur fram að þær hugmyndir sem upphaflega voru settar fram varðandi þennan landsbyggðarskatt, veiðigjaldið, hefðu kafkeyrt stóran hluta íslensks sjávarútvegs. Þessar breytingar, eftir að breytingartillögur hafa verið lagðar fram, munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Ef við ætlum að ganga hart að sjávarútveginum þá verður hann auðvitað fyrir áfalli og þegar sjávarútvegurinn verður fyrir áfalli verður öll íslenska þjóðin fyrir áfalli. Og ef af þessari skattheimtu verður, í þeim mikla mæli sem hér er lagt til, munu áhrifin til lengri tíma verða þau að tekjur ríkissjóðs munu dragast saman og þar með munu lífskjör okkar versna. Í liðinni viku voru kynntar breytingar á frumvarpi þessu. Nú er áætlað að aðeins verði innheimtir 15 milljarðar kr. — reyndar liggja útreikningar ekki fyrir á því sem sýna hvernig sú tala er fengin. En að mínu mati er þetta gjald enn of hátt.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að gerðar verði miklar breytingar á frumvarpinu áður en það verður keyrt hér í gegnum þingið. Fulltrúar okkar sjálfstæðismanna í atvinnuveganefnd fara ítarlega yfir það í nefndaráliti sínu að sú aðferðafræði, að tala um veiðigjald, brjóti gegn stjórnarskránni. Í stjórnarskránni er fjallað um það með hvaða hætti skattar skuli lagðir á en hér er ekki farið eftir þeim meginreglum.

Þjóðarbú okkar byggist á sterkum sjávarútvegi. Veiðarnar eru sjálfbærar og skapa þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur. Fiskveiðistjórnarkerfið er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Allir sem tengjast þessu máli hafa talað um að leiðin til að ná fram breytingum á kerfinu sé sú að setjast niður saman og fara yfir það hvernig best er að fara að því. Það er farsælast að gera það þannig og ég hélt einfaldlega, þar sem búið var að skipa nefnd sem komst að ákveðinni niðurstöðu um sáttaleiðina, að við ætluðum að fara þá leið. Allir þeir sem komu fyrir atvinnuveganefnd við vinnslu málsins voru spurðir hvort samráð hefði verið haft við þá við gerð málsins og það er hálfskrýtið til þess að vita að svarið við því var nei, eins og komið hefur fram í umræðunum í dag. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sem beindi þeirri spurningu til allra þeirra sem komu á fund nefndarinnar.

Þessi vinnubrögð við að kollvarpa kerfinu á þennan hátt, og að leggja til þessa miklu skattheimtu, eru óskiljanleg, sérstaklega þegar við erum með íslenskan sjávarútveg undir sem ekki þiggur ríkisstyrki, kerfi sem byggir á því. Í ljósi þess skilur maður það ekki og ekki heldur þegar haft er í huga að aðrar þjóðir horfa á okkar kerfi sem fyrirmynd að því hvernig gott kerfi, byggt á sjálfbærum veiðum án ríkisstyrkja, getur orðið til. Evrópusambandið, hið háheilaga í augum samfylkingarmanna, hefur haft þá skoðun. Ég skil því ekki að á þessum tímum, þegar við þurfum svo mjög á því að halda að atvinnulífið sé sterkt, að störfum fjölgi, að fjárfestingar verði meiri, sé ráðist í að kollvarpa kerfinu.

Við Íslendingar eigum miklar auðlindir í vatni, jarðhita, sjávarútvegi og auðvitað í mannauði. Ef við berum gæfu til að nýta þær auðlindir skynsamlega munum við ná okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í mun fyrr en ella. En við erum ekki á réttri leið með þessu máli.

Ég hóf ræðu mína á því að ræða um réttlæti og ríkisstjórnin virðist telja að þær boðuðu breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu séu mesta réttlætismál allra tíma miðað við umræðuna hér í þingsal. En þetta réttlæti ríkisstjórnarflokkanna verður dýru verði keypt. Það er almenningur sem mun borga, lífskjörin munu versna, áhrifin munu koma fram til lengri tíma litið og verða alvarleg. Ég er stolt af því að hafa kerfi þar sem stundaðar eru sjálfbærar veiðar og án ríkisstyrkja. Ég tel að við eigum einfaldlega að vera stolt af því og vera fyrirmynd annarra þjóða varðandi uppbyggingu innviða öflugs sjávarútvegskerfis. Ég tel að við í þinginu eigum að sameinast um að eyða þeirri óvissu sem fjölmargir starfsmenn, sjómenn, landverkafólk, útvegsmenn og almennir íbúar sjávarbyggðanna hringinn í kringum landið búa við í dag vegna þessara tillagna ríkisstjórnarflokkanna.

Frú forseti. Mig langar að benda á áhugaverða grein sem fjallar um þau grunnsjónarmið sem notuð hafa verið af ríkisstjórnarflokkunum til þess að réttlæta og rökstyðja umræddar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þorsteinn Pálsson skrifaði grein í Fréttablaðið 31. mars sl. sem heitir „Réttlát þjóðareign með arði“. Þar fer sá fyrrverandi sjávarútvegsráðherra yfir réttlætisrökin, rök um almannahagsmuni og yfir það markmið að færa fjármuni frá sjávarútvegsfyrirtækjunum til fólksins í landinu. Ef við skoðum aðeins þessar röksemdir út frá sjónarmiðum Þorsteins Pálssonar þá er þetta afskaplega skýrt. Ef þú ætlar að sýna fram á að innleiða þurfi meira réttlæti í kerfið hlýtur þú að vera á þeirri skoðun að óréttlæti sé í kerfinu. Þú hlýtur þá að þurfa að segja hvenær réttlæti verði náð og það ætti þá að birtast í þeim málum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt hér fram til að ná fram markmiðum sínum. Ég get ekki séð að það hafi verið gert og það mat kemur líka fram í grein Þorsteins Pálssonar.

Mig langar að vitna í síðasta kaflann í greininni sem fjallar um hvort réttlæti fáist með hærri skatti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er spurning hvort sú staðhæfing er rétt að stóraukin skattheimta sem Alþingi sér síðan um að dreifa út á ný skapi það almenna réttlæti sem allir þrá. Að hluta til svara lögmál hagfræðinnar þessari spurningu en að öðrum hluta ræður ólíkt tilfinningamat. Fyrst er á það að líta að óhagkvæmara stjórnkerfi dregur úr arðsemi og minnkar skattstofninn. Eins og áform ríkisstjórnarinnar eru nú á að taka að meðaltali nær allan hagnað fyrirtækjanna í ríkissjóð miðað við núverandi hagkvæmni. Það segir sig sjálft að fá þeirra munu starfa áfram eftir það.“ — Og þetta hefur verið staðfest af þeim sérfræðingum sem skilað hafa álitsgerðum varðandi þetta mál. — „Þess vegna mun ríkisstjórnin gefa eftir og lækka skatthlutfallið.“

Frú forseti. Í andsvörum mínum við þá hv. þingmenn sem hafa talað í kvöld hef ég varpað fram spurningum um þá aðferðafræði sem við höfum kynnst svo vel hér í þinginu af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sú aðferðafræði gengur út á það að setja fram galnar hugmyndir um öfgafulla skattheimtu, öfgafull boð og bönn, og bakka síðan aðeins til að sýna fram á að hægt hefði verið að hafa þetta aðeins verra, að hægt hefði verið að ganga aðeins lengra, en menn séu tilbúnir í tilslakanir. Þetta er aðferðafræði sem ætti að vera orðin okkur öllum löngu kunn eftir að hafa búið við núverandi ríkisstjórn í þrjú ár.

Áfram segir í greininni, með leyfi forseta:

„Sú eftirgjöf mun fækka þeim fyrirtækjum sem leggja upp laupana. Eigi að síður mun ráðagerðin draga mjög þrótt úr atvinnugreininni. Hvaða svar á ríkisstjórnin þegar stór hluti fyrirtækjanna sýnir halla á rekstri? Hún lætur þau ekki fara á hausinn. Gengi krónunnar verður lækkað þannig að verst reknu fyrirtækin komist á núllpunktinn.“

Frú forseti. Hvert erum við komin þá? Erum við þá komin aftur til þeirra tíma sem voru áður en núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi var innleitt? Sjáum við aftur fram á þá tíma að krónan verði gengisfelld vegna sjávarútvegsins æ ofan í æ? Sjáum við kannski fram á að ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði aftur teknir upp?

En áfram segir í greininni:

„Þetta þýðir að færa þarf peninga frá heimilunum til sjávarútvegsfyrirtækjanna ofan á það sem gera þarf vegna neikvæðra áhrifa af skipulagsbreytingunum. Þannig munu skattpeningarnir sem ríkisstjórnin ætlar að endurúthluta til heimila og sveitarstjórna hverfa í viðvarandi gengislækkunum. Réttlætið í þessu minnir á hundinn þegar hann bítur í rófuna á sér.“

Og þarna hittir Þorsteinn Pálsson, að mínu mati, naglann á höfuðið. Það er ekki hægt að rökstyðja þessar breytingar út frá réttlætishugtakinu. Það er einfaldlega rangt að reyna að halda því fram. Mun rökréttara væri af ríkisstjórnarflokkunum að segja einfaldlega: Það þarf meiri pening í ríkiskassann, við ætlum að hækka skatt og þess vegna gerum við það. En það er ekki gert heldur er þetta kallað veiðigjald í staðinn fyrir að tala um skatt, sem er réttnefni. Síðan er farið í að úthluta fjármununum í ákveðin verkefni fyrir fram á meðan ríkissjóður er í gengdarlausum halla.

Ég hefði talið, frú forseti, að taka þyrfti þessi mál til gagngerrar endurskoðunar og ríkisstjórnarflokkarnir ættu að endurskoða þetta aðeins. Auðvitað vita allir að þeir þurfa að leggja sitt af mörkum, þar á meðal þeir sem starfa í sjávarútvegi, og útgerðirnar vita það líka. En þetta er ekki leiðin og þær fjölmörgu umsagnir sem borist hafa um málið ættu að duga til að sannfæra hvern sem er um að svo er ekki.

Það eru ekki bara sjómenn og fiskverkafólk sem hefur áhyggjur af öllum þessum málum. Fjölmörg sveitarfélög hafa ályktað um þessar fyrirhuguðu lagabreytingar. Ég er með umsögn frá Vestmannaeyjabæ um þessi frumvörp, bæði um stjórn fiskveiða og um veiðigjaldið. Bæjarráðið varar sterklega við því að þau verði samþykkt óbreytt. Vísað er í greinargerð sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Það er auðvitað rétt sem kemur fram í umsögninni að greinargerðin ætti ein og sér að duga til þess að menn stoppi aðeins og íhugi hvort þeir séu á réttri leið. Stór orð eru notuð í þeirri greinargerð, meðal annars er sagt að ekki hafi verið hægt að reikna út veiðigjaldið þar sem útfærslu skorti á aðferðafræðinni sem lögð var til í málinu. Þá spyr maður: Hvers vegna eru svona óvönduð frumvörp lögð fram hér í þinginu? En það er kannski önnur saga. Menn hafa kannski ætlað að reyna að koma málum inn í þingið fyrir þinglok og verið að flýta sér en við þekkjum af reynslu að það gefst aldrei vel.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar kemur líka fram að sérfræðingar búist við umhleypingum á meðan breytingarnar gangi yfir. Þar sem þessi skattlagning muni verða svo íþyngjandi muni hrikta í stoðum öflugra sjávarútvegsfyrirtækja og þau væntanlega ekki öll lifa þetta af. Vísað er til þess að sérfræðingarnir bendi á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að enda skorti langtímastöðugleika til að skapa grundvöll fyrir uppbyggingu til lengri tíma. Við þekkjum það hér í umræðunni að fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki eru komin í mikla þörf til að fjárfesta. Þörf er á að endurnýja landvinnsluna og skipaflotann en menn halda að sér höndum vegna óvissunnar. Menn vita ekki hvað dagurinn á morgun ber í skauti sér og auðvitað er þá ekki hlaupið af stað í miklar fjárfestingar.

Okkur sem hér vinnum ber því skylda til að klára þá umræðu sem eftir er áður en málin eru afgreidd. Stóra málið, varðandi breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, er enn fast í atvinnuveganefnd vegna þess að menn geta ekki komið sér saman um hvernig það á að líta út. Það er einfaldlega vegna þess að hlaupið var af stað án þess að klára það nauðsynlega samráð sem átti að mínu viti að eiga sér stað áður en þessi mál kæmu fram.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar kemur fram að miðað við upphaflega frumvarpið sem lagt var fram varðandi veiðigjaldið hefði auðlindagjaldið orðið 5 milljarðar fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum. Eftir breytingar höfum við heyrt talað um 2 milljarða fyrir Vestmannaeyjar, aðrir tala um 4 milljarða. Af því að um er að ræða sértækan skatt á eina atvinnugrein bitnar hann að sjálfsögðu harkalega á byggðarlögum sem byggja nær allan sinn atvinnurekstur á sjávarútvegi, líkt og er í Eyjum. Vestmannaeyjar eru ein öflugasta verstöð landsins, ef ekki sú öflugasta. Af því að menn héldu því fram í umræðum hér í dag að engin uppbygging hefði átt sér stað, þess sæist hvergi stað í byggðum landsins að þar væru öflug sjávarútvegsfyrirtæki að störfum, þá er ég einfaldlega ósammála því. Allir þeir sem leggja leið sína niður að höfn, hvort sem er í Vestmannaeyjum, Hafnarfirði eða á Hornafirði eða í öllum þessum ágætu plássum, sjá vel að þar eru kröftug fyrirtæki og mikið líf tengt sjávarútveginum.

Frú forseti. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar er jafnframt bent á að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur. Fyrirtæki okkar eru hins vegar í samkeppni við erlenda aðila í sjávarútvegi og í Evrópusambandinu nýtur sjávarútvegurinn ríkisstyrkja. Í umsögninni er vitnað til skýrslu Oceana sem kom út í september og fjallaði um styrki ESB til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Niðurstaða þeirrar skýrslu var sú að greinin hefði árið 2009 fengið styrki sem samsvöruðu 50% af verðmæti aflans. Við það eru fyrirtækin okkar að keppa. Ef við hefðum ætlað að leggja samsvarandi styrki og Evrópusambandið gerði árið 2009 inn í greinina hefðum við þurft að greiða 76,5 milljarða með sjávarútveginum á síðasta ári. Það gerum við ekki vegna þess að við eigum það sterkan sjávarútveg að við þurfum ekki greiða inn í hann úr ríkissjóði. Við erum aftur á móti með hann sem undirstöðu að okkar hagkerfi, að velferðarkerfinu og menntakerfi okkar, við megum ekki gleyma því, það er mikilvæg staðreynd. Ég trúi ekki að það sé ætlun nokkurs manns hér í þinginu að draga úr þeirri sérstöðu okkar á heimsvísu, að breyta fiskveiðikerfi okkar á þann hátt að fórna því sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum, að fórna því að eiga hér sjálfstæðan og öflugan sjávarútveg þar sem hagræðing er höfð að leiðarljósi, þar sem sífellt er verið að ná meiru út úr því sem aflað er, með bættri vinnslu.

Það öfluga starfsfólk sem vinnur við að sækja fiskinn og vinna hann í landi hefur áhyggjur af boðuðum breytingum. Reksturinn gengur auðvitað út á það að reyna að sækja fiskinn fyrir sem minnstan pening, vinna hann, gera úr honum meiri verðmæti og selja hann fyrir sem mestan pening og koma þannig með sem mestar gjaldeyristekjur inn í landið. Út á það gengur þetta. Um leið og farið er í jafnróttækar og miklar skattahækkanir og hér eru boðaðar gefur það að sjálfsögðu augaleið að minni fjármunir verða inni í fyrirtækjunum til að byggja upp til framtíðar, til að bæta vinnsluna eða til að efla fiskiskipaflotann. Og hvar stöndum við þá?

Stóra málið, sem enn er fast í nefnd, gengur út á að fjölga þeim sem fara inn í greinina. Þá kemur að sjálfsögðu minna til þeirra fyrirtækja sem þegar eru starfandi, sem þýðir að þau draga úr rekstri sínum, þau þurfa að hagræða enn frekar og segja upp fólki. Ný fyrirtæki þyrftu að byggja upp markaði, þyrftu að fjárfesta í búnaði, þyrftu að fjárfesta í fleiri skipum. Og hvert erum við þá komin? Erum við þá komin aftur til þess ástands sem ríkti áður en kerfið okkar var lögfest? Allt of margir að reyna að sækja allt of lítinn afla. Við erum að tala um takmarkaða auðlind. Ég ætla að vona að ekki standi til að fara að leyfa ótakmarkaðar veiðar á stofnunum. En þegar takmörkuð verðmæti eru til skiptanna verður það alltaf þannig að einhverjir telja sig hlunnfarna og telja að þeir fái ekki nægi gæði í sinn hlut. Eðlilega er það þannig. En kerfið okkar, þó að það sé ekki gallalaust, er að mínu mati besta fyrirkomulagið sem við eigum völ á og við eigum ekki að kollvarpa því.

Við eigum að sníða af því þá galla sem við sjáum, við eigum að gera það í samráði til að ná sem mestri sátt við þá sem starfa í greininni og vinna þannig að almannahagsmunum. Þar eru almannahagsmunirnir. Að halda áfram að eiga þessa sterku grundvallaratvinnugrein þar sem stundaðar eru sjálfbærar fiskveiðar, þar sem ríkisstyrkir koma ekki til, þar sem allra leiða er leitað til að sækja fiskinn fyrir sem minnstan tilkostnað og auka verðmæti hans í vinnslunni og selja hann síðan á sem hæstu verði erlendis í samkeppni við ríkisstyrktan Evrópufisk.

Ég skil ekki alveg hvernig menn geta rökstutt það að þær breytingar sem hér eru boðaðar stuðli að réttlæti, jafnræði eða að þær færi arðinn til fólksins. Eins og ég hef farið yfir í máli mínu er jafnræði gagnvart öðrum greinum raskað með þessum aukaskatti á sjávarútveginn. Almannahagsmunirnir felast í því að við eigum undirstöðuatvinnugrein sem skilar af sér til samfélagsins, þar liggja almannahagsmunirnir. Almannahagsmunirnir eru þeir að við þurfum ekki að greiða ríkisfé inn í þá atvinnugrein heldur notum hana sem undirstöðuatvinnugrein og undirstöðu undir hagkerfið okkar. Réttlætið er fólgið í því að við njótum þess öll að eiga þessa sterku atvinnugrein og arðurinn færist þannig til fólksins, til okkar allra.

Ég hefði getað haldið mun lengri ræðu um málið en mig langar í lok máls míns að vísa til álitsgerðar sem Mörkin lögmannsstofa hf. vann fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum til að skoða réttarstöðu þessa félags með tilliti til þeirra frumvarpa sem liggja fyrir þinginu. Mér finnst sú álitsgerð athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Upp í hugann koma margar spurningar varðandi eignarrétt. Hvað er eignarréttur? Hvað er sameign íslensku þjóðarinnar? Nú á að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla í haust um boðaðar breytingar á stjórnarskránni þar sem kjósa á um það hvort menn vilji að í stjórnarskrá standi að allar auðlindir séu þjóðareign. Ég held að hverjum manni sé hollt að lesa þær pælingar sem settar eru fram í umræddri álitsgerð. Er þjóðareign ekki einfaldlega það sama og ríkiseign?