140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er ég að flytja til Tyrklands, ef það var spurningin. Ég verð hins vegar að lýsa því yfir, frú forseti, og við hv. þingmann að það er í rauninni með ólíkindum hvernig Reykjavíkurborg hefur tekið á þessu máli. Hér eru þúsundir starfa á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast beint og óbeint sjávarútveginum. Það eru að sjálfsögðu störfin um borð í skipunum sem eru gerð út hér, það eru störfin í fiskvinnslunni, það eru fiskmarkaðirnir, vélsmiðjurnar, slippurinn, rafvirkjarnir, þetta er allt til staðar í Reykjavík þar sem þessi skip eru þjónustuð og gerð út. En það ríkir algjör þögn um þessi mál hjá Reykjavíkurborg, hjá höfuðborginni, sem er með þessi miklu umsvif í sjávarútvegi. Ég held að það sé alveg augljóst að skilaboðin sem þaðan koma frá Besta flokknum, Bjartri framtíð (Gripið fram í.) og Samfylkingunni eru einfaldlega þau að þessir aðilar hafa bara engar áhyggjur af þessari atvinnugrein í borginni, hún geti þá bara flutt eitthvert annað. (ÁJ: Slorlyktin.) Þetta er kannski bara fyrir. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra er reynslumikill maður og vitur þegar kemur að þessu. (Forseti hringir.) Já, það er komið rautt ljós, það er best að geyma þetta.