140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við erum svo sannarlega sammála í þessu máli. Sérstaklega þakka ég þingmanninum fyrir að hafa minnt mig á það sem ég mundi ekki eftir í ræðu minni, að nú þegar, áður en frumvarpið er orðið að lögum, er ríkisstjórnin farin að ráðstafa þessum skatti fram í tímann og langt yfir á næsta kjörtímabil. Það er því um skýra skattlagningu að ræða enda segir í tveimur greinum stjórnarskrárinnar að engan skatt megi leggja á eða taka af nema með lögum. Hvað er þetta annað í frumvarpinu? Þetta er því hreinn og klár skattur.

Miðað við þá skilgreiningu fellur almenna gjaldið raunverulega líka undir skattlagningu vegna þess að það er verið að lögfesta það með frumvarpi. Gjöld eru frekar lögð á með reglugerðarákvæði fyrir ráðherra og annað, en þó að það sé yfirlýst stefna í þessu frumvarpi að almenna gjaldið eigi að renna í rekstur ríkisstofnana sem snúa að sjávarútveginum er það svo sem engin trygging fyrir því að þetta fari þangað því að það þarf að vera alveg afmarkað og skýrt að ef um gjald er að ræða megi ekki nota það fjármagn í annað en þann afmarkaða rekstur eða í það leyfi sem um getur. Þetta er því enn ein skattlagningin hjá þessari hörmungaríkisstjórn.

Ég fór yfir það í upphafi að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra tókst svo vel að umbylta virðisaukaskattskerfinu að sl. tvö ár hafa tapast út úr innlenda virðisaukaskattskerfinu 40 milljarðar. Einhvers staðar verður því að taka fjármagnið inn á nýjan leik. Þetta kom fram í svari frá fjármálaráðuneytinu í fyrradag. Það er mjög alvarlegt mál þegar skattheimtan er orðin svo stíf og íþyngjandi og svakaleg fyrir þegnana að allir skattar fara að virka aftur á bak þannig að ríkið verður fyrir gríðarlegum (Forseti hringir.) tekjumissi. Ríkisstjórn sem stjórnar slíku ríki er ekki á réttri leið.