140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að samgöngur skipta verulegu máli og mér fannst hann gera of lítið úr því með því að tala ekki um þær í samhengi við staðsetningu fyrirtækjanna eins og ég spurði um, vegna þess að ef ekki eru samgöngur á Langanes eða Austfirði eða Vestfirði eða hvar það nú er verður fiskurinn ekki fluttur á markað. Samgöngur eru meginundirstaða þess að sjávarútvegur blómstri á landsbyggðinni.

Það sem ég var að reyna að koma inn á í ræðu minni og fyrirspurn minni var að eftir því sem meiri álögur eru settar á útgerðina, meiri skattar og takmarkanir, þeim mun erfiðara á landsbyggðin uppdráttar í þessu máli. Þetta er ekki bara spurningin um að flytja peninga til Reykjavíkur þar sem allt ríkisvaldið stendur — og þessum peningum verður að sjálfsögðu eytt innan ríkisvaldsins — heldur er þetta líka spurningin um það að hlekkirnir á útgerðinni sliga hana úti á landi.