140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög æskilegt að hæstv. ríkisstjórn sendi nú ekki fleiri byggðastyrki út á landsbyggðina.

Hv. þingmaður kom inn á það hvernig er búið að vega að grunnstoðunum og grunnþjónustunni úti á landsbyggðinni. Við þekkjum alla þá baráttu sem farið var í gegn því, við munum alveg eftir þessum fjölmennu fundum sem voru haldnir á mörgum stórum stöðum þegar stjórnvöld lögðu til 40% niðurskurð á heilbrigðisþjónustunni. Íbúarnir brugðust auðvitað við, það voru ekki síst íbúarnir sem hröktu stjórnvöld til baka með þessar tilraunir. Mig langar að rifja það upp að vinnubrögðin öll voru náttúrlega algjörlega óþolandi og ólíðandi. Þegar búið var að leggja fram niðurskurðartillögur í heilbrigðismálum haustið 2011 fyrir árið 2012, fór ráðuneytið yfir þær, fagráðuneytið sjálft, og þegar búið var að rýna þær var niðurstaða þess sú að margar af tillögunum væru ekki framkvæmanlegar í niðurskurði. Samt var búið að leggja þær fram og ætlast til að þær yrðu samþykktar. Það var sjálft fagráðuneytið sem fór yfir þær.

Frasaumræðan er oft og tíðum einkennandi hjá hæstv. ríkisstjórn og eitt af því er svokölluð kynjuð fjárlagagerð. Í hverju felst hún? (PHB: Að segja upp konum.) Nákvæmlega, hv. þm. Pétur Blöndal, hún felst nefnilega í því að reka konurnar út af heilbrigðisstofnunum. Þannig eru aðgerðirnar, það er öðruvísi talað en framkvæmt. Ég man eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, þegar hún var nýbúin að taka við, var spurð að því hver yrðu helstu áherslumál hennar. Jú, það var að auka vægi kynjaðrar fjárlagagerðar. Ég vona að það gangi ekki eftir á sömu braut og verið hefur hingað til, að konurnar verði enn frekar reknar út af heilbrigðisstofnunum til þess að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar.