140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi kæruleysislega afstaða sem við hv. þingmaður höfum verið að gera hérna að umtalsefni sem veldur mér mjög miklum áhyggjum. Það er undarlegt að vita til þessarar afstöðu þegar sá banki sem hefur langflest sjávarútvegsfyrirtæki í viðskiptum hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa farið yfir stöðuna hjá 124 fyrirtækjum, sem hafa reyndar haldið utan um 90% af kvótanum, að 74 þessara fyrirtækja mundu ekki ráða við þetta, yrðu gjaldþrota. Hv. stjórnarliðar gera mjög lítið úr þessu og segja: Þetta er ekkert vandamál, það rís bara upp einhvers staðar annars staðar fiskvinnsla og fiskveiðar verða stundaðar áfram og þetta er ekkert áhyggjuefni.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að slíkt ástand mundi auðvitað hafa í för með sér byggðaröskun af stærðargráðu sem við höfum aldrei nokkurn tíma séð áður, þegar stór hluti útgerðarinnar mundi einfaldlega ekki ráða við veiðigjaldið og það yrði þessi gríðarlega uppstokkun? Hvað skoðun hefur hv. þingmaður á því sem haldið hefur verið fram að þetta muni að endingu leiða til (Forseti hringir.) meiri samþjöppunar í kerfinu? Telur hv. þingmaður að (Forseti hringir.) slík samþjöppun sé æskileg?