140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af áhrifum svo gríðarlega hás veiðigjalds á minni sjávarbyggðir. Þær ályktanir sem hv. þingmaður las upp frá sveitarstjórnum í sjávarbyggðunum á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og fleiri hafa borist víðar af landinu, eru alvarlegar áminningar til Alþingis um að hugleiða vandlega hvað sé eiginlega verið að gera.

Þetta er gjörólík stefna við það sem ég lagði til, þar sem ég lagði til aðallega stjórn á fiskveiðum en að veiðigjaldinu væri stillt í hóf. Ég minni á að í stefnu VG er ekki minnst á, að ég held, að taka auðlindagjald enda höfum við ekki verið mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði kapítalismans. Því hef ég lagt til, bæði í þeim frumvörpum sem ég lagði fram og einnig líka nú, að hluti af tekjum af veiðigjöldum innheimtum (Forseti hringir.) verði ráðstafað til sveitarfélaganna, um helming eða allt að því, til sátta. Ég vil heyra viðhorf hv. þingmanns til þess.