140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru þessar vangaveltur þingmannsins um það hvers vegna staðan í ríkisstjórnarflokkunum sé eins og raun ber vitni og af hverju málflutningurinn hefur þróast með þessum hætti. Í sjálfu sér höfum við búið við hótanastíl af hálfu hæstv. forsætisráðherra allt þetta kjörtímabil. Við getum minnst Icesave-málsins í því sambandi og margra annarra mála.

Í Morgunblaðinu í gærmorgun var mjög athyglisverður leiðari þar sem farið var yfir reynslu þeirra sem hafa starfað lengi með hæstv. forsætisráðherra í pólitík. Þar var einmitt lýsing á því hvernig pólitískur ferill hæstv. ráðherra hefur verið í hótanastíl, hún hefur gengið úr stjórnmálaflokkum, stofnað nýja, gengið inn aftur og gengið úr ríkisstjórnum. Það hefur gjarnan verið dálítið stríðsástand í kringum hæstv. forsætisráðherra (MÁ: Hver segir það?) á hennar pólitíska ferli. (MÁ: Hver er heimildin?)

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið í fyrra þar sem ég talaði um að hæstv. forsætisráðherra væri friðarspillir og var að vitna til ákveðinna mála í þinginu. Ég stend við það að í þeim málum var hæstv. ráðherra friðarspillir. Þegar tækifæri var til að leita sátta og vinna hlutina með samkomulagi sló hæstv. forsætisráðherra á þá sáttarhönd. Við höfum boðið upp á það, stjórnarandstöðuflokkarnir, í þessum málum og mörgum öðrum að leitað sé sátta, en sáttin á gjarnan að liggja í því að farið sé að öllum kröfum hæstv. ráðherra. Hún hefur ekki gegnt því forustuhlutverki (Forseti hringir.) sem á þarf að halda við þessar aðstæður, hún hefur ekki gegnt því forustuhlutverki í sáttaumleitunum sem (Forseti hringir.) forsætisráðherra á hverjum tíma ber að gera.