140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held það væri heillaráð sem hv. þm. Mörður Árnason stakk upp á að hér væru stundum tveir ræðustólar og helst hljóðeinangrun á milli. (JónG: Þolirðu ekki að heyra sannleikann?)

Ég veit að ég gerist stundum sek um að kalla fram í, en ég geri það helst ekki fyrr en rauða ljósið er byrjað að blikka, og vek athygli á því. Ég held það væri nefnilega góður siður að menn stilltu sig um frammíköll þangað til rauða ljósið er farið að blikka því að þá er ræðutíminn búinn.

Það er hálfþreytandi þegar hv. þm. Jón Gunnarsson, milli þess sem hann notar þennan ræðustól til að ræða um einstaka fjarstadda þingmenn, situr síðan í sæti sínu úti í sal og upphefur einræður og frammíköll þannig að það heyrist varla sem sagt er. Það er svo erfitt út af hljómburðinum, maður heyrir illa í ræðumönnum sem standa í ræðustól.

Það liggur við að ég biðji hv. þm. Mörð Árnason að endurtaka ræðu sína því að honum liggur lágt rómur. Ég heyrði eiginlega ekki orð af því sem hann sagði. — Þetta er bara vinsamleg ábending til frú forseta.