140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Maður er hálfsleginn yfir því hvernig þessi umræða er að þróast. Ekki einasta kom hv. þm. Björn Valur Gíslason sem er þingflokksformaður Vinstri grænna hingað með dylgjur um að þingmenn séu drukknir, þeir sem hafa talað í kvöld, og minntist sérstaklega á einn þingmann, og nú er það komið í ljós hvaða þingmann hann átti við, heldur sitja líka þingmenn heima hjá sér og blogga um það að við sem erum að starfa í þágu þjóðarinnar séum drukkin í vinnunni. Forsætisnefnd verður núna að setjast niður og semja einhverjar reglur þannig að þetta endurtaki sig ekki.

Ég minni líka á það, frú forseti, að þetta er sami maður og hafði uppi mjög slæm meiðyrði um forseta Íslands í andsvari við mig á sínum tíma, en á einhvern undarlegan hátt virðist þessi hv. þingmaður sífellt sleppa við vítur eða áminningar og þarf aldrei að biðjast afsökunar. (Forseti hringir.) Nú væntum við þingmenn þess að þessi þingmaður fái þá ráðningu sem (Forseti hringir.) hann á skilið.