140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir ræðu hennar sem fjallaði þó að minnstum hluta um umræðuefnið sjálft, þ.e. frumvarpið sem við fjöllum nú um, heldur var lesið hér upp úr blöðum og helst þá Morgunblaðinu, sem er kannski við hæfi hvað þetta varðar, og hv. þingmaður vitnaði í gamlar síður þess blaðs og nýjar.

Hv. þingmaður heldur því fram að við séum líklega fjær því í dag en nokkurn tíma áður að ná sátt um þetta mál og það sé hreinlega ekki krafa frá almenningi um að breyta kerfinu. Ég er ósammála hvorutveggja. Við höfum aldrei á þessum 20, 25 árum verið nær því en einmitt í dag að ná samkomulagi um það hvernig á að reka íslenskan sjávarútveg.

Þar vitna ég til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, m.a. skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem skilaði af sér ítarlegri skýrslu árið 2010 þar sem komist er að þeirri meginniðurstöðu, með leyfi forseta, svo ég vitni beint í skýrsluna:

„Meiri hluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. […] Meiri hluti starfshópsins er sammála um að mæla með að aflaheimildum verði skipt í „potta“ þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, svo sem byggðakvóti, strandveiðar …“ o.s.frv.

Það er meginniðurstaða hópsins. Hún er samhljóða meginniðurstöðum allra þeirra hópa sem skilað hafa af sér á síðustu 20 árum og þetta er megininntak þeirra frumvarpa sem við fjöllum um á Alþingi í dag.

Ég spyr hv. þingmann: Er hv. þingmaður andsnúinn þeim meginmarkmiðum sem þverpólitískur hópur og hópur skipaður hagsmunaaðilum (Forseti hringir.) komust að árið 2010, árið 2000, (Forseti hringir.) árið 1999 og árið 1993?