140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Þau frumvörp sem hér liggja til grundvallar eru ekki í samræmi við þá vinnu sem unnin hefur verið og ríkisstjórnin hóf í upphafi kjörtímabils og vakti vonir hjá mér og fleirum um að það væri einhver vilji og alvara á bak við það að kalla eftir sátt í greininni.

Ríkisstjórnin fór nefnilega ágætlega af stað. En eins og við munum, ég og hv. þingmaður, var varla þornað blekið í skýrslu sáttanefndarinnar þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom hér í andsvar eða fyrirspurn með yfirlýsingar þess efnis að nú væri samráðinu lokið og það væri þá möguleiki á að fara að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er það sem verið hefur á dagskrá ríkisstjórnarinnar síðan.

Ég bendi hv. þingmanni á niðurstöðu og samantekt í ítarlegu nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar um málið þar sem dregnar eru fram ástæður þess og niðurstaða af hverju þetta mál er allt annað en það sem hv. þingmaður vill láta líta út fyrir að vera. Þar að auki er algjörlega óhugsandi að ætla að koma með einhverjar yfirlýsingar um hvað sé hóflegt og hvað ekki þegar við vitum ekki hvernig fiskveiðistjórnarkerfi við ætlum að búa við. Mér dettur því ekki í hug að svara spurningu hv. þingmanns vegna þess að sú spurning er algjörlega úr lausu lofti gripin. Ég gæti alveg eins staðið hér og sett puttann upp í loft.

Sérfræðingar sem unnið hafa fyrir nefndina, ekki sérfræðingar Sjálfstæðisflokksins heldur sem hv. þingmaður hefur sjálfur kallað fyrir nefndina, hafa sagt: Breytingarnar á veiðileyfagjaldinu, jú, þær gætu gengið upp. (Forseti hringir.) En við verðum fyrst að vita í hvaða veruleika við lifum (Forseti hringir.) og við vitum það ekki nákvæmlega eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um.