140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar þá líkingu eða það dæmi sem hv. þingmaður tók varðandi húseign og það að mönnum, öðrum aðila, sé leyft að nýta hana tímabundið, þá er ég ósammála forsendunni, þ.e. ég tel að það hafi aldrei verið þannig að ríkið hafi átt húsið, ef svo má segja. Ég tel að það hafi aldrei verið þannig að ríkið hafi átt sóknarréttinn og síðan framselt hann eða leigt hann til annarra. Ég tel að það sé einmitt á grundvelli hefðarréttar og vitnaði í ræðu minni til þeirra hugmynda sem eiga upphaf sitt hjá John Locke og öðrum heimspekingum sem hafa fjallað um þetta. Reyndar tel ég að hér sé á ferðinni eitt af þeim grundvallarmálum stjórnmálanna, þ.e. hvernig eignarréttur verður til og á hvaða forsendum og hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkisvaldið lýsir því yfir að allar auðlindir sem ekki eru nú þegar í eigu einhvers aðila, einkaeign eða opinberri eigu, verði hér eftir í eigu ríkis. Ég tel það hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Hvað varðar hugtakið þjóðareign hef ég kallað mjög eftir því að menn kalli hlutina sínum réttu nöfnum. Hér kom fram, eins og ég nefndi áðan, í svari frá hv. þm. Skúla Helgasyni sá skilningur hans að um sé að ræða þjóðareign, það þýði ríkiseign sem ekki megi framselja. Gott og vel, þá skulum við bara kalla þetta það. Við skulum þá bara kalla það það að veiðirétturinn verði sem sagt ríkiseign og ekki megi framselja hann, gott og vel, það er þá einhver niðurstaða.

Af því að hv. þingmaður vitnaði til fræðirita vil ég gjarnan benda hv. þingmanni á skrif Sigurðar Líndals í Úlfljóti, 1. tbl. þessa árs, þar sem hann fer mjög rækilega yfir þetta hugtak, hvað það þýðir. Niðurstaða hans er einmitt sú að hugtakið þjóðareign eitt og sér hefur ekki merkingu fyrr en menn líta á það sem svo að um sé að ræða ríkiseign, því að hugtakið eitt og sér er mjög illa til þess fallið að fara til dæmis inn í stjórnarskrá, óvissan sem því fylgir er bara það mikil. En hugtakið ríkiseign er alveg skýrt og það er vel við hæfi að slíkt fari inn í stjórnarskrá, virðulegi forseti.