140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:18]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er svolítið merkilegt ef það er virkilega þannig að þingmaðurinn haldi því fram að fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, góðir og gegnir og sumir af okkar færustu lögfræðingum og fræðimönnum á sviði stjórnskipunarréttar í þeim ágæta flokki viti ekki hvað þeir leggi fram á Alþingi. Má vera að rétt sé, ég skal ekki deila um það, en ég er hins vegar sammála þeim í þessu efni og tel ekki vera neinn vafa á því.

Ég vil nota þennan stutta andsvaratíma til að fara í raunveruleg andsvör en ekki meðsvör og svona huggulegheit eins og hér eru stundum og segja að mér finnst rangt að leggja út af mótmælafundinum á Austurvelli með þeim hætti sem þingmenn hafa verið að gera. Ég held að sá fundur hér úti sýni okkur akkúrat að hann er táknrænn fyrir þann ágreining getum við sagt sem er í samfélaginu um auðlindina okkar og hann er okkur áminning um það að okkur ber nauðsyn til að ná sátt um það og það á að vera sameiginlegt markmið okkar.

Ég er líka sammála þingmanninum um að við eigum ekki að vera að nota orðaleppa og slagorð. En á sama tíma verð ég að segja að ég sit hér sem þingmaður míns stjórnmálaflokks undir stöðugum árásum nákvæmlega af þeim toga. Ég hlusta á það að ég sé andstæðingur landsbyggðarinnar, ég sé að gera árás á atvinnuvegi landsins. Ég hlusta á þingmenn segja hér að verið sé að ráðast á landsbyggðina. Það eru slagorð, árás á landsbyggðina, og mér finnst þau ósmekkleg. Ég er mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður sé, að ég tel, sammála mér um að þetta sé ekki uppbyggileg umræða.