140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór aðeins yfir byggðaáhrifin af þessu máli. Hann rifjaði upp það sem ég og hv. þingmaður urðum vitni að þegar við áttum sæti saman í fjárlaganefnd þegar sitjandi ríkisstjórn lagði til að rústa hreinlega heilbrigðiskerfinu með því að ráðast í gígantískan niðurskurð, niðurskurð upp á tugi prósenta á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, í löggæslumálum og fleira. Þá var lagt til í hv. fjárlaganefnd að fram færi sérstök byggðaúttekt á áhrifum fjárlaganna. Mönnum þótti það eðlileg krafa, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefði látið fara fram kynjafræðilega úttekt á fjárlögunum, það væri ekki óeðlilegt að einhver sambærileg úttekt yrði gerð á áhrifum fjárlaganna á landsbyggðina. Það er skemmst frá því að segja að það var ekki mjög mikill vilji til þess meðal meiri hluta fjárlaganefndarinnar að slíkt úttekt færi fram en það var þó samþykkt að lokum með semingi.

Lítið hefur farið fyrir þessari byggðaúttekt. Meðal annars dró hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson það að skila upplýsingum frá ráðuneyti sínu og skilaði þeim ekki fyrr en rúmu ári síðar fyrir þessa byggðaúttekt. Í ljósi þessa hefur maður talsverðar áhyggjur af því að ríkissjóður ætli sér að ná í veiðigjald og taka það inn í ríkissjóð. Við eigum einfaldlega að hafa orð þessa fólks fyrir því að landsbyggðin fái þá fjármuni aftur. Reynslan af stjórnartíð ríkisstjórnarinnar og vinnu hennar við fjárlagagerð og fleira segir okkur því miður að landsbyggðin getur ekki treyst á það að þeir fjármunir muni renna aftur til landsbyggðarinnar. Það kom glögglega í ljós á sínum tíma með niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu og þessa byggðaúttekt að byggðir landsins geta ekki treyst þessari ríkisstjórn þegar kemur að útdeilingu fjármuna.