140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um nýtingarleyfi, samninga og þess háttar og er ég í grunninn sammála þingmanninum um að það er hægt að hengja á slík leyfi eða samninga ákveðnar reglur eða skyldur. Það er hægt að rökstyðja að þeir sem fái slíkt eigi þá að greiða fyrir þá samninga. Ég kýs að tala um samninga, ég held að það sé betra að gerðir séu samningar en veitt leyfi en að sjálfsögðu getur það farið eftir því hvernig leyfisveitingin er orðuð og allur sá texti. Það getur vel verið að það geti svo sem uppfyllt sömu skilgreiningu ef þar er vandað til verka en ég held að samningur sé betri upp á að takmarka líkur á einhvers konar málaferlum í framhaldinu. Það kann hins vegar að vera einfaldara að setja á veiðileyfi.

Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja segir, með leyfi forseta:

„Núverandi staða efnahagsmála hér á landi mælir ekki með því að gerðar séu grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. Þjóðin glímir enn við afleiðingar efnahagshrunsins og glæfralegt að skapa óvissu um stöðu sjávarútvegs meðan svo stendur á.“

Það er samhljómur í þessu við margar aðrar athugasemdir sem hafa komið fram við þessi frumvörp. Menn vara við því að afleiðingarnar séu óljósar og að mikil óvissa kunni að skapast. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegra að reyna að skapa einhvers konar vissu um framtíð þessarar greinar þannig að þeir sem í henni starfa geti horft til framtíðar, geti séð að það séu ekki einhver kvik stjórnvöld, ef ég má orða það þannig, sem breyta sífellt umhverfinu sem þessir aðilar starfa í og leggi jafnvel á þá aukaskatta þegar fyrirtækin horfa fram á erfiða tíma.