140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar kveðjur í minn garð og góðar óskir um framhald þingstarfa. Það sem ég er að biðja um er að mark sé tekið á þeim athugasemdum sem fram hafa komið, sem ganga meðal annars út á að ekki sé hægt að skoða veiðigjaldafrumvarpið eitt og sér án þess að skoða frumvarpið um stjórn fiskveiða um leið.

Sá sérfræðingur sem meiri hluti atvinnuveganefndar — meiri hlutinn ekki minni hlutinn, ég tek það skýrt fram — fékk til að skoða þetta fyrir sig hefur lagt mjög þunga áherslu á það. Daði Már Kristófersson hagfræðingur hafði uppi mjög harða gagnrýni á bæði frumvörpin. Eftir breytingar sem lagðar voru til af hálfu meiri hlutans í atvinnuveganefnd sagði hann: Verði ekki gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu stendur öll mín gagnrýni óbreytt. Það hefur hann ítrekað sagt og sú gagnrýni kom síðast fram í Speglinum í útvarpinu í gærkvöldi.

Það heyrir reyndar til tíðinda að sá ágæti útvarpsþáttur finni einhvern viðmælanda sem er ekki sammála þáttastjórnendunum, eins og hv. þingmenn þekkja. Þórólfur Matthíasson hefur greinilega verið í sumarfríi eða eitthvað þannig að hann komst ekki í þáttinn í gær, hann verður þar ábyggilega í næstu viku.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er nú einn af höfundum veiðigjaldafrumvarpsins, þekkir það úr ýmsum áttum að varað hefur verið við afleiðingum þess fyrir útgerðina, fyrir landsbyggðina, fyrir sveitarfélög, fyrir hina og þessa. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að þær athugasemdir séu allar tilhæfulausar? Er hann þeirrar skoðunar að þeir fjölmörgu aðilar sem sett hafa fram gagnrýni á þetta höfundarverk hans séu á villigötum?