140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að það valdi mikilli óvissu um framtíð íslensks sjávarútvegs að vera með bæði þessi mál á dagskrá í þinginu og þau átök sem hafa ríkt um framtíð íslensks sjávarútvegs allt þetta kjörtímabil og hafa síðan til viðbótar umsókn í gangi um aðild að Evrópusambandinu. Í því sambandi hefur komið í ljós að Evrópusambandið hefur ekkert viljað sýna á spilin í bráðum þrjú ár í viðræðunum þannig að við erum enn í mikilli óvissu um hvað mögulegt er að semja um.

Það er reyndar ágætt að þetta skuli koma upp hér vegna þess að það var einmitt í dag sem Hafrannsóknastofnun lagði til eða kom með ráðgjöf um veiðar fyrir næsta fiskveiðiár og voru bæði góðar og slæmar fréttir í þeim upplýsingum sem komu frá Hafrannsóknastofnun. Það er kannski ágætt að rifja það þá upp að um leið og við gleðjumst yfir aukningu þorskstofnsins og hörmum að ýsustofninn er að gefa eftir að ef við værum í Evrópusambandinu mundum við bíða eftir því að heyra hvað Evrópusambandið ætlaði að gera með upplýsingarnar vegna þess að það væri úr okkar höndum að taka ákvörðun um heildarafla hvers árs.

Varðandi stöðuna hér heima að öðru leyti og það sem ég nefndi um arðsemi greinarinnar þá er það mjög athyglisvert sem kemur fram í skýrslu Arion banka, að það eru ekki nema sex ár síðan Norðmenn drógu að mestu leyti úr framlögum og styrkjum til sjávarútvegs og árið 1992 voru styrkir til greinarinnar í Noregi tæplega 30% af tekjum hennar. Svo eftir að menn drógu úr styrkjunum byrjaði arðsemi að aukast í greininni.