140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég hef verið að reyna að skilja hvað liggur að baki þankaganginum hjá þessari hæstv. ríkisstjórn vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum frumvörp sem ganga einfaldlega ekki upp, sem sérfræðingar benda á að séu í rauninni stórgölluð og jafnvel hættuleg.

Hvað veldur því? Ég hallast að því að það sé vegna þess að menn telji að hér hafi þeir sögulegt tækifæri sósíalismans á Íslandi til að innleiða hugmyndafræðina sem hann byggir á, en í ákafanum að reyna að koma mestu til leiðar á sem skemmstum tíma þá gleymi menn að huga að undirstöðunum og að reikna dæmið (Forseti hringir.) til enda.