140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:03]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tíminn er ansi stuttur. Það væri betra ef stjórnarandstöðuþingmenn mundu kannski spara sér meðsvörin þegar loksins gefur tækifæri til þess að stjórnarþingmenn tali því það er yfirleitt ekki mikið á meðsvörunum að græða.

Ég vildi í þessari ræðu þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu eins og hann flytur alla jafna um sjávarútvegsmál en ég vil taka það fram, frú forseti, að ég hef ekki notað hugtök eins og ofsagróði eða ofurgróði eða það að útgerðarmenn kunni ekki fótum sínum forráð. Hins vegar hef ég spurt um fjárfestinguna og ég spyr með réttu vegna þess að hér nota þingmenn alls konar orðaleppa, bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, og stjórnarandstaðan hefur mikið talað um að þetta væru landsbyggðarskattar. Þess vegna hef ég ítrekað spurt og spyr með réttu, ekki vegna þess að fjárfesting sé slæm — fjárfesting er góð, ég er mér fyllilega meðvitaður um það — en ég hef spurt: Hvar hefur hagnaðurinn verið fjárfestur? Var hann áður fjárfestur á landsbyggðinni, í höfuðborginni eða erlendis? Það er ekkert neikvætt við það. (Forseti hringir.) Ég er bara að spyrja en svörin fæ ég því miður ekki.