140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég væri sannarlega að hreykja mér hátt ef ég segði að ég hefði ekki stundum notað of stór orð í gegnum tíðina í sjávarútvegsumræðunni, ég held að það eigi við okkur flesta, þannig að ég skal vel taka það til mín að einhverju leyti. En núna finnst mér hins vegar liggja mjög mikið við og ég hef þess vegna reynt af mínum veika mætti að komast í gegnum þessa umræðu án þess að vera með mikla sleggjudóma þótt ég útiloki ekki að þeir hafi líka fallið í ræðum mínum í þessari umræðu.

Það sem ég reyndi að sýna fram á með tilvísun til upplýsinga frá Landsbanka Íslands er að fjárfesting sjávarútvegsins virðist fyrst og fremst hafa verið í kjarnastarfsemi, það eru undantekningar. Í öðru lagi liggur fyrir í mati bankanna að vanskil sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið miklu minni hlutfallslega en annarra fyrirtækja og í þriðja lagi að afskriftir gagnvart einstökum atvinnugreinum eru hlutfallslega litlar í sjávarútvegi. Það er ánægjulegt og á sínar skýringar; rekstrarafkoman í heildina hefur verið góð. En þetta eru hins vegar staðreyndir (Forseti hringir.) sem mér finnst nauðsynlegt að leggja inn í þessa umræðu vegna þess að mér finnst hafa borið dálítið mikið á því að menn hafi haldið hinu fram.