140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í andsvari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar þar sem rætt var um þær fjölmörgu umsagnir sem komið hafa til þingsins um þessi mál sem allar voru neikvæðar, nema hugsanlega ein umsögn frá Samfylkingunni sjálfri. Ég velti fyrir mér hvernig hv. stjórnarliðar fara að því að viðhalda þeirri afneitun sem virðist vera til staðar í málinu og hefði áhuga á að heyra hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að hér séum við að fást við hreina og klára afneitun. Hún gengur meira að segja svo langt að í dag og í gær voru nokkrir hv. stjórnarliðar farnir að ímynda sér að stór hluti þess fólks sem mætti á Austurvelli í gær hefði verið mættur til að mæla með frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Að vísu var innan um sjómennina að því er mér skilst um 70 manna hópur sem, samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins, var að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann, frjálsar handfæraveiðar, aðskilnað veiða og vinnslu og allan fiskinn á markað. Ríkisútvarpið virðist síðan hafa gleymt eigin frétt og fór að hafa það eftir stjórnarliðum að einhverjir á Austurvelli hefðu verið að mæla með frumvarpi ríkisstjórnarinnar,

Er hv. þingmaður sammála mér um að ýmislegt í málflutningi stjórnarliða, þar með talið þessar nýjustu fullyrðingar eða ímyndun (Forseti hringir.) um að hér hafi fjöldi fólks á Austurvelli verið að mæla með frumvörpum ríkisstjórnarinnar, beri vott (Forseti hringir.) um algera afneitun eða skort á raunveruleikaskyni?