140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að virðulegur forseti svari hv. þingmönnum um hversu lengi standi til að halda áfram fundi. Eins og ég hef áður sagt við hæstv. forseta sem nú situr á forsetastóli hefur það verið þannig undanfarna daga, allt frá því að starfsáætlun féll úr gildi, nánast verið með áætlun klukkutíma fram í tímann. Nú hefur forseti Alþingis ákveðið að hafa þingfund í fyrramálið. Klukkan er langt gengin í 2 og ég tel að það hljóti að vera nokkuð einfalt mál fyrir virðulegan forseta að gefa þingmönnum einhverja hugmynd um hversu lengi þessir fundir eiga að standa. Ég segi það í fullri vinsemd við hæstv. forseta og ég skal ekkert vera að fara yfir fjölskylduaðstæður mínar hér. Ég held að það hljóti að vera einfalt fyrir hæstv. forseta að upplýsa það hvort standi til að halda áfram til kl. 2, 3, 4, 5, 6, 7 eða hvort það sé kannski vilji hæstv. forseta að þingfundir standi fram á morgundaginn og renni saman við þann þingfund.