140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þau viðbrögð sem koma fram sýna þann hroka og það yfirlæti sem við búum við í þinginu þegar farið er að snúa út úr spurningum okkar með því að tala um að mælendaskráin sé löng og mikið órætt og efnismiklar ræður. Þær eru það og það er um margt að tala í þessu efni.

Þegar upp er staðið er markmið okkar í þinginu auðvitað það að ná sátt um einhver mál, komast að einhverri niðurstöðu í máli. Við förum fram á að fá að vita hvernig meiri hlutinn ætlar að haga þessum umræðum, hversu lengi á að halda áfram. Ég er ekki að kveinka mér undan því. En það verður auðvitað ekki búið við að komið sé fram við okkur í minni hlutanum af yfirlæti. (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) Svar okkar við því er að þó að við höldum áfram til kl. 7 í fyrramálið, fram að vaktaskiptum, og tökum aftur upp þráðinn kl. 10.30 verður mælendaskráin (Forseti hringir.) jafnlöng, ég get lofað ykkur því, við erum ekkert að kveinka okkur undan því. Við erum bara að biðja um einfalt svar.